Þjóðmál

Hér er rætt hispurslaust um stjórnmál, efnahagsmál, menningu og annað tengt þjóðmálum.

#350 – Helgarvaktin með Herði og Stefáni Einari sem koma saman á ný

Hörður Ægisson og Stefán Einar Stefánsson koma saman á ný eftir alltof langa fjarveru. Við ræðum það sem hæst bar í vikunni í bland við annað. Förum yfir það sem helst bar á góma við þingsetningu og stefnuræðu forsætisráðherra, nýkynnt fjárlög, þær skattahækkanir sem í vændum eru, tillögu um að selja Landsbankann, hvort atvinnustefna ríkisstjórnarinnar skili einhverjum árangri og margt fleira. Loks ræðum við um morðið á Charlie Kirk og þá umræðu sem hefur skapast í kjölfarið.

09-12
01:54:15

#351 – Frosti Loga og Hermann Nökkvi ræða um Charlie Kirk

Fjölmiðlamennirnir Frosti Logason og Hermann Nökkvi Gunnarsson ræða um Charlie Kirk, sem var myrtur í síðustu viku, þau áhrif sem hann hafði á ungt fólk bæði Vestanhafs og víða um heim, þær skoðanir sem hann setti fram og hélt á lofti, viðbrögðin við andláti hans, tilraunir fjölmiðla til að mála upp dökka mynd af honum og fleira. Þá er einnig rætt um umræðuhefðina og þörfina á heilbrigðum skoðanaskiptum, hver hefur leyfi til að skilgreina hvað má segja og hvað ekki.

09-16
01:08:43

#349 – Víglínan sem haggast lítið – Kristján Johannessen fer yfir stöðu mála í Úkraínu

Kristján Johannessen ræðir um stöðuna í Úkraínu, af hverju víglínan færist lítið, hvaða vopnum er verið að beita og hvernig, hvort að Vesturlönd hafi staðið sína plikt í stuðningi við Úkraínu, hvort að stríðið eða niðurstaðan þess komi okkur almennt við, hvort útlit sé fyrir frið og margt fleira sem snýr að þeim átökum sem hafa nú staðið yfir í rúmlega þrjú og hálft ár.

09-08
01:14:27

#348 – Helgarvaktin með Andrési og Stefáni Einari – Með allt á hreinu, hreinu gagnvart samfélaginu

Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson fara yfir allt það helsta, þjóðfélagsumræðu sem snýst um hvað má segja og hvað ekki, ákvörðun um að skipta út þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, hvort einver sakni VG af þingi, mögulegan formannsslag í Framsóknarflokknum og margt fleira.

09-05
01:27:53

#347 – Kaffispjall með Rannveigu Eir og Hilmari Þór í Reir Verk

Hjónin Hilmar Þór Kristinsson og Rannveig Eir Einarsdóttir reistu fyrir 20 árum litla raðhúsalengju í Vesturbæ Reykjavíkur. Það lagði grunninn af því fyrirtæki sem við í dag þekkjum sem Reir Verk, en þau hafa á þeim tíma sem liðinn er komið að framkvæmdum á mörgum af helstu byggingarreitum á Höfuðborgarsvæðinu. Þau ræða hér um uppbygginguna, hvernig fasteignamarkaðurinn hefur þróast, um helstu áhrifaþætti, um REIR20 sem var kynnt til leiks nú í vikunni og er ætlað að auðvelda fólki að komast inn á íbúðamarkaðinn og margt fleira. Þá ræða þau einnig um það hvernig það er að búa saman og vinna saman, um fjárfestingar þeirra í öðrum félögum og fleira.

09-02
54:45

#346 – Helgarvaktin með Einari Þorsteins og Halldóri Halldórs

Einar Þorsteinsson og Halldór Halldórsson ræða um stöðuna í borginni, nýjustu kannanir um fylgi flokka, hvort að Framsókn nái vopnum sínum, hvort að Sjálfstæðisflokkurinn eigi mögulega á því að komast í meirihluta, hvort að innstæða sé fyrir fylgi Samfylkingarinnar og annað sem snýr að pólitíkinni. Þá er rætt um skipulagsmálin og íbúðauppbyggingu, hvernig stjórnmálaskoðanir skiptast eftir hverfum, tillögur um skattalækkanir sem núverandi meirihluti vill ekki heyra minnst á og margt fleira. Við ræðum líka um nýjan aðstoðarmann menntamálaráðherra, hvernig ríkisstjórninni mun takast að koma fjárlögum í gegn, um aðför ríkisstjórnarinnar að atvinnulífinu og fleira.

08-29
01:27:30

#345 – Frjálshyggja 101 með Hannesi Hólmsteini

Hannes Hólmsteinn Gissurarson fer yfir grundvallarkenningar hægri manna, af hverju hægri menn hafa þær skoðanir sem þeir hafa og á hverju þær byggjast, hvaða hlutverki ríkisvaldið ætti að gegna, hvort að frjálshyggjan sé mannúðleg stefna eða ekki, um mikilvægi eignarréttarins, hvenær gengið er of langt í skattheimtu, hvort að brauðmolakenningin sé til í raun og veru, hver megi eiga auðlindirnar og margt fleira.

08-27
01:12:24

#344 – Maraþonþáttur á Uppi bar – Part III

Þriðji maraþonþáttur Þjóðmála lítur dagsins ljós og þjóðin ærist af gleði. Gestir þáttarins eru Stefán Einar Stefánsson, Þórður Gunnarsson, Sandra Ocares, Andrea Sigurðardóttir, Bergþór Ólason, Orri Hauksson, Þórður Pálsson, Heiðar Guðjónsson, Hörður Ægisson, Örn Arnarson, Sigríður Á. Andersen, María Björk Einarsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Sævar Helgi Bragason, Kristín Gunnarsdóttir, Ólöf Skaftadóttir. Hér er tæplæga fjögurra klukkustunda skemmtun fyrir unga sem aldna.

08-22
03:49:13

#343 – Albert Jónsson fer yfir stöðuna áður en vélarnar lenda í Washington

Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra og einn helsti sérfræðingur landsins í alþjóðamálum, ræðir um fund forseta Bandaríkjanna og Rússlands sem virðist að öllu óbreyttu ætla að skila litlum árangri, stöðu Úkraínumanna sem kann að skýrast að einhverju leyti á fundi í Washington í dag, hvernig vestræn ríki hafa brugðist við átökum Úkraínu og hegðun Rússa og fleira. Þá er einnig rætt um skort á upplýstri umræðu um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu, átökin fyrir botni Miðjarahafs, stöðu Kínverja og fleira.

08-18
01:14:55

#342 – Stöðufundur með Ingva Þór og Þórði Gunnars – ÁTVR í tilvistarkreppu – Ekkert líf í höfnum á landsbyggðinni

Ingvi Þór Georgsson og Þórður Gunnarsson mæta í Þjóðmálastofuna og fara yfir allt það helsta. Við gerum stuttlega upp golfmót Þjóðmála, ræðum um útflutningsskatta í Bandaríkjunum, nýja úttekt Viðskiptaráðs um efnahagsleg áhrif af því fáa sem ríkisstjórnin (sem stundum vill kalla sig verkstjórn) kom í gegnum þingið í vor, vaxtaákvörðun Seðlabankans í næstu viku, hvort að hlutabréfamarkaðurinn sé í raun spennandi kostur í hávaxtaumhverfi, sjoppustefnu ÁTVR og tilvistarkreppu þess ríkisapparats og margt fleira.

08-13
01:12:45

#341 – Helgarvaktin með Andrési og Stefáni Einari – Það sem ráðherrann vildi sagt hafa

Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson slá á létta strengi og kæta landsmenn með nærveru sinni í hlaðvarpi þjóðarinnar. Rætt er um einbeittan (brota)vilja ríkisstjórnarinnar sem vill troða okkur inn í ESB, óljós skilaboð utanríkisráðherra í samtölum við erlenda miðla, þögn forsætisráðherra um tollamál, rugludalla sem vilja skerða akademískt frelsi, stöðu flokka í könnunum sem og önnur málefni líðandi stundar.

08-07
01:46:30

#340 – Kerfisvilla í skipulagsmálum skekkir fasteignamarkaðinn

Sigurður Stefánsson, framkvæmdastjóri Aflvaka þróunarfélags, ræðir um stöðuna á fasteignamarkaði, orsakirnar fyrir þeim miklu verðhækkunum sem hafa átt sér stað á þeim markaði á liðnum árum og hvað afleiðingar þær hafa, möguleika ungs fólks að komast inn á markaðinn, um gallaða löggjöf um skipulagsmál sveitarfélaga og kerfisvillur, hvernig leysa megi úr flækjunni, hvernig lýðfræðin hefur áhrif á markaðinn og margt fleira.

08-05
59:50

#339 – Verslunarmanna-helgarvakt með Heiðari Guðjóns og Sigríði Andersen

Heiðar Guðjónsson og Sigríður Andersen kíkja í Þjóðmálastofuna í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar og fara yfir allt það helsta. Við ræðum um möguleikana á olíuleit, ummæli Heiðars um að mögulega væri hægt að fella niður alla skatta á Íslandi, áherslur ríkisstjórnarinnar á sterkari tengsl við Hamas og ESB á meðan málin hér heima bíða, nýja tolla sem ESB ætlar að setja á Ísland, hvort að forsætisráðherra sé í raun að leiða ríkisstjórnina, neikvæða umfjöllun í garð ferðaþjónustunnar, gjaldmiðlamál, hvort að vinsældir ríkisstjórnarinnar séu tímabundnar eða varanlegar og margt fleira.

07-31
01:32:28

#338 – Hún er loksins komin – Upplestur á aðgerðaráætlun stjórnvalda í menntamálum

Guðmundir Ingi Kristinsson birti í upphafi þessa mánaðar 2. aðgerðaráætlun stjórnvalda í menntamálum. Menn hafa beðið lengi eftir þessari aðgerðaráætlun og því er hér um að ræða mikið mikinn áfanga. Í aðgerðaráætluninni er meðal annars lögð áhersla á að styðja við grænfánaverkefni Landverndar í skólum landsins, auka áherslu á sjálfbærni og loftslagsmál og tryggja að námsumhverfi styðji við farsælt nám og vellíðan svo nefnd séu nokkur atriði. Þjóðmál leggur áherslu á góða þjónustu við hlustendur, sem er í raun þjóðin öll, og því fengum við Magnús Ragnarsson, góðvin þáttarins, til að lesa upp þetta mikla tímamótaverk eins og það leggur sig.

07-28
54:15

#337 – Kjartan Ólafsson ræðir um uppbyggingu fiskeldis á Íslandi

Kjartan Ólafsson hefur um árabil komið að uppbyggingu fiskeldis hér á landi. Í ítarlegu viðtali ræðir hann um efnahagslegu áhrifin af þeirri uppbyggingu, hvaða áskoranir hafa orðið á vegi hennar, hvernig næstu ár geta litið út, fjárfestingar í greininni, af hverju neytendur ættu frekar að vilja eldisfisk frá Íslandi frekar en öðrum löndum sem standa í sömu starfsemi og fleira. Þá er einnig rætt um þá gagnrýni sem hefur komið fram á fiskeldi í opnum sjókvíum, muninn á eldinu á sjó og landi og annað sem snýr að þessari mikilvægu atvinnugrein.

07-24
01:23:00

#336 – Lífstílsferð Þjóðmála í golf á Spáni – Heimilið fer á hliðina þegar kröfuharða frænkan kemur

Stefán Einar Stefánsson, Þórður Gunnarsson og Örn Arnarson skelltu sér í golfferð og dvöldu í góðu yfirlæti á Camiral vellinum á Spáni. Lífið er þó ekki bara leikur því að sjálfsögðu var tekinn þáttur úti þar sem farið er yfir það helsta sem á sér stað heima fyrir. Þar má nefna hvernig forsætis- og utanríkisráðherra sperrtust upp við það að yfirmaður frá Brussel kæmi til landsins, falskar yfirlýsingar um að Íslendingar þrái það að ganga í Evrópusambandið, hvernig sífellt er traðkað á Flokki fólksins, spurningar sem ekki mátti spyrja á blaðamannafundi og fleira. Eðli málsins samkvæmt er einnig rætt um golflífstílinn, dvölina á Spáni og fleira því tengt.

07-21
01:31:17

#335 – Helgarvaktin með Einari Sig og Herði

Einar Sigurðsson og Hörður Ægisson fara yfir allt það helsta, eftirmálana af þinglokunum, villandi umræðu um mögulega aðild að Evrópusambandinu, verðmætasköpunina sem fjallað er um í stjórnarsáttmálanum en finnst hvergi, minnkandi líkur á frekari vaxtalækkunum í bili, mögulegan samruna Arion og Kviku og margt fleira.

07-17
02:08:30

#334 – Björn Bjarnason fer yfir stöðuna þegar þingið klárast og sólin skín

Björn Bjarnason fer yfir ein skrautlegustu þinglok sögunnar, hvernig hin svokallaða verkstjórn ber ekki nafn með rentu, Flokk fólksins sem virkar eins og hækja fyrir erfið mál ríkisstjórnarinnar, hvort að forseta þingsins sé stætt á að gegna því embætti áfram, nýjan sendiherra í Brussel sem er ætlað að liðka til fyrir umsóknarferli að Evrópusambandinu og margt fleira sem snýr að íslenskum stjórnmálum. Þá ræðum við líka um stöðuna á erlendum vettvangi, til að mynda hvort að vestræn ríki hafi stutt við bakið á Úkraínu eins og þau höfðu sagst ætla að gera og fleira.

07-14
01:16:30

#333 – Helgarvaktin með Kristínu Gunnars og Stefáni Einari – Starfstitill og leiðtogahlutverk er ekki það sama

Kristín Gunnarsdóttir og Stefán Einar Stefánsson fara yfir dramatískan dag í stjórnmálunum á sinn einstaka og yfirvegaða hátt, hvort að leiðtogar ríkisstjórnarinnar hafi burði til að leiða mál til lykta á farsælan hátt, þá undarlegu staðreynd að fólk sé almennt upplýst um 71.gr. þingskapalaga ásamt öðrum og mikilvægum málum og atbuðum sem áttu sér stað í vikunni.

07-10
01:57:29

#332 – Kristján Vilhelmsson í viðtali

Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja, fer yfir starfsemi félagsins í góðu spjalli sem er tekið upp í Drift á Akureyri. Við ræðum um það hversu mikið stjórnendur þurfa að vera vakandi yfir rekstrinum, hvernig tæknin um borð í skipum og í fiskvinnslum hefur þróast og hvernig félagið hefur náð að hámarka virði þess sem sótt er í sjó og fleira. Þá er rætt um erlenda starfsemi félagsins liðna áratugi, hvernig hún kom til, hvernig hún hefur gengið og margt fleira.

07-07
55:00

Recommend Channels