George Michael var eitt mesta poppstirni heims, satt og sannað og það með löggildum pappírum. Í þættinum gerum við úttekt á mögnuðum ferli þessa mikla meistara og kippum poppbrjálæðinu Wham! einnig um borð þegar við metum hámarksárangur meistarans á plötugerðarsviðinu.
Artí og ögrandi? Kjánalegt grall? Undur með einn smell? Undir hvaða hatt er best að setja Devo?
Robbie Williams er vægast sagt skrautlegur náungi. En er eitthvað varið í þessa músík?
Gáfumannaþungarokk Tool náði hæstu hæðum tiltölulega fljótt eða á annarri plötunni, Ænima (1996). Um það má hins vegar deila og var slíkt gert í tólf tíma þætti, gerðum til að endurspegla lengd laga Tool og tímann sem sveitin tekur í það að gera plötur. Djók.
Það kom aldrei annað til greina en að staldra við stærstu tónlistarfrétt síðustu ára — andlát eins af helstu arkitektum þungarokksins: Ozzy Osbourne.
Við opnuðum fyrir neyðarlínu Bestu plötunnar og fengum myndarlegan haug af vafasömum tónlistarskoðunum frá hlustendum. Við reyndum að dæma engan, en sumt er reyndar svo yfirmáta heimskulegt að það dæmir sig sjálft.
Besta plata æringjanna í Madness er þeirra fyrsta, One Step Beyond (1979). Samt er það ekki alveg svo einfalt því að snemma kom í ljós að grín er ekkert glens …
Gojira eru nefstórir, croissant-étandi flagarar, sem fengu leið á því að traðka á vínberjum og stofnuðu þess í stað grjótharða þungarokkshljómsveit sem nýtur virðingar um alla veröld. Þriðja plata sveitarinnar, From Mars to Sirius frá 2005, er sú besta.
Gullöld tónlistarmyndbandanna hófst í upphafi 9. áratugar síðustu aldar og sér vart fyrir endann á henni, nærri hálfri öld síðar. Þríeykið knáa rýnir í þetta stórmerkilega fyrirbæri og að sjálfsögðu var settur saman topplisti.
Það lágu áskoranir jafnt sem yndislegheit í því að kafa ofan í stórmerkilegan feril Ragnhildar Gísladóttur, þessarar stórmerku dívu og drottningar. Plötu er stillt fram sem þeirri „bestu“ en málið er sannarlega flóknara en svo …
Kim Larsen er vinsælasti tónlistarmaður Danmerkur frá upphafi, eða eins og Danir segja: „Hann er spilaður þegar þú fæðist, þegar þú giftir þig og þegar þú deyrð“. Platan 231045-0637 frá árinu 1979, eða „kennitöluplatan“ eins og hún er oft kölluð, er hans besta að mati Hauks, en hvað segja meðstjórnendur?
Í þætti þessum koma þáttastjórnendur fram með öndverðar skoðanir á því sem pöpullinn telur vera gott og gilt. Svæsin rönt, fáránlegar söguskoðanir og djörf sundtök mót hörðum straumi hins viðtekna.
Bleiknefjar riðu ekki feitum hesti frá rapptilraunum sínum á fyrstu tveimur áratugum hiphopsins, að Skepnubræðrum undanskildum kannski. En í lok 10. áratugarins spratt Eminem fram á sjónarsviðið og það var ekki annað hægt en að taka hann alvarlega. The Marshall Mathers LP frá árinu 2000 er almennt talin hans besta verk — og hún er það svo sannarlega.
Hin mjög svo enska Wire er með áhrifamestu síðpönkssveitum. Dr. Arnar stillir þriðju plötu hennar, 154 (1979), fram sem hápunkti hennar. Og hefst svo lestur …
Hvað er snekkjurokk? Hverjir spila það? Hvað koma Steely Dan málinu við? Er það svalt, hallærislegt eða hvað? Og af hverju er Michael McDonald svona mikill dúllubossi? Svör við öllu þessu er að finna í þætti vikunnar sem er jafnframt 250. þáttur hlaðvarpsins!🚢🥳
Machine Head lentu í mikilli tilvistarkreppu á „númetal-árunum“, en það getur enginn tekið frumburð þeirra, Burn My Eyes frá 1994, frá þeim, enda ein af lykilplötum næntís þungarokksins.
„Hjartaknúsarinn“ er merkilegt fyrirbæri í tónlistarsögunni. Sætur, tilfinningaríkur maður, oft íklæddur smóking eða fallegri peysu. Ekkert endilega sérstaklega graður, en alltaf gjörsamlega að farast úr ást. Við veltum þessu fyrir okkur í þætti vikunnar.
Yoko Ono hefur sinnt margháttaðri starfsemi á langri ævi, m.a. tónlistargerð. Sá þáttur reis hæst árið 1971 með hinni framsæknu Fly. BP-liðar fóru yfir feril Yoko í funheitum þætti.
„Rönnið“ sem Toto átti á árunum 1978–1982 á sér fáar hliðstæður. Fyrsta platan, sem er samnefnd sveitinni, er kannski ekki heilsteyptust, en hún er áberandi best. Því heldur Haukur a.m.k. fram.
Það getur skipt öllu fyrir feril tónlistarfólks að byrja fyrstu útgefnu breiðskífuna með vel heppnuðu, eftirminnilegu lagi. En hvernig ber fólk sig að í þeim fræðunum? Að því munum við komast upp úr miðnætti.
Adam Hoffritz
Gott dæmi um hvað Besta platan er gagnlegur þáttur. Hljómsveit og tónlistarstefna sem ég veit ekkert um og svo fer ég að hlusta. Þessi plata er rosaleg!!