Bara bækur

Þáttur um bókmenntir, bæði hér heima og úti í heimi. Hlustendum er fylgt í gegnum lestur athyglisverðra bókmenntaverka og rætt við höfunda, útgefendur og fræðimenn um stefnur, strauma, tákn og tilvísanir. Umsjón: Jóhannes Ólafsson.

Bara bækur, Milan Kundera og Reykjavík Poetics

Í þessum fyrsta þætti er fjallað um tvennt sem má vel tengja saman; Skáldskapur rithöfunda sem búa ekki í sínu fæðingarlandi og skrifa jafnvel verk sín ekki á sínu móðurmáli. Á Íslandi hafa nýir vindar borist um bókmenntalífið á undanförnum árum með tilkomu æ fleiri skálda af erlendum uppruna sem fest hafa hér rætur og yrkja bæði á íslensku og öðrum málum. Við fjöllum um þessa þróun og lítum inn á ljóðasamkomur sem hófu göngu sína í sumar, Reykjavík Poetics. Þá förum við líka til meginlands Evrópu og skoðum feril skáldsagnarisans Milan Kundera sem féll frá á þessu ári og hans flóknu tengsl við sínar heimaslóðir. Auk þess verður vöngum velt yfir nafni þáttarins og viðhorfi fólks til bóka og lesturs í gegnum tíðina. Viðmælendur: Jón Karl Helgason, Friðrik Rafnsson, Mao Alheimsdóttir, Natasha S. og Kjartan Már Ómarsson. Umsjónarmaður: Jóhannes Ólafsson.

09-09
53:31

Afskrifaðar bækur, Kletturinn og frásagnir flóttafólks

Í þessum þætti veltum við fyrir okkur frásögnum flóttafólks og rannsóknum á þeim á sviði bókmenntafræðinnar. Í því samhengi flettum við í bókinni Vanþakkláti flóttamaðurinn eftir Dinu Nayeri, sem var gestur bókmenntahátíðar í Reykjavík í vor, en hún skrifar þar um eigin reynslu og annarra af flótta. Við opnum líka splunkunýja skáldsögu eftir Sverri Norland sem kallast Kletturinn, veltum fyrir okkur samskiptum karlmanna, gömlum leyndarmálum og brengluðu gildismati samtímans. En að geyma bók eða ekki geyma, þar er efinn. Við veltum fyrir okkur afskrifuðum bókum á bókasöfnum, hver ákveður hver á að reka bækur á dyr? Eiga bókaunnendur að safna í stafla eða losa sig við bók eftir fyrsta lestur? Viðmælendur: Guttormur Þorsteinsson bókavörður, Sverrir Norland Rithöfundur og Gunnþórunn Guðmundsdóttir prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Lesari: Karitas Mörtudóttir Bjarkadóttir Umsjón: Jóhannes Ólafsson

09-16
50:00

Bókahilla rithöfundar og Kaveh Akbar

Bara bækur fara í heimsókn til rithöfundarins Sigurlín Bjarneyjar Gísladóttur. Það verður reglulegur liður í þættinum að ræða við rithöfunda sem lesendur, gramsa í bókahillunni þeirra og fá að vita hvað þeir eru að lesa. Íransk-bandaríska ljóðskáldið Kaveh Akbar verður einnig gestur í þættinum. Kaveh er stórstjarna á sviði ljóðlistar vestanhafs en bækur hans Calling a wolf a wolf og Pilgrim bell hafa slegið í gegn og fengið frábærar viðtökur lesenda og gagnrýnenda. Kaveh var staddur hér á landi og í þætti dagsins ræðir hann ljóðlist og bænir, tungumálaskilning, baráttu við fíkn og leitina að guði. Við fáum líka lestur á ljóði hans My Empire eða Heimsveldið mitt eins og það heitir í þýðingu Þórdísar Helgadóttur sem snarað hefur nokkrum af ljóðum Kaveh yfir á íslensku. Viðmælendur: Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Þórdís Helgadóttir og Kaveh Akbar. Tónlist: Pista (Fresh Start) - Los Bitchos, Speak softly now - Skúli Sverrisson og Óskar Guðjónsson. Umsjón: Jóhannes Ólafsson

09-23
50:00

Átök um ljóð og alþýðuskáld og Bakland

Við verðum með hugann við ljóðalist í þættinum. Það skiptist á með skini og skúrum í heimi ljóðsins og hefur gert það áratugum og öldum saman. Þórður Helgason íslenskufræðingur gaf hér í skyn í byrjun þáttar að það væri ekki búið að gera upp alla bókmenntasöguna. Þórður var að gefa frá sér stóra og mikla bók Alþýðuskáldin á Íslandi sem ber undirtitilinn Saga um átök. Þar rekur hann bleki drifna sögu, átök milli lærðu skáldanna og þeirra leiku frá fyrri hluta 19. aldar til upphafs þeirrar 20., baráttu um stöðu, pláss, gildismat og fagurfræði. Við rifjum líka upp nýrri deilur, kúltúrbörn, strætó- og spíttljóð og dauða ljóðsins. Í lokin ræðum við svo splunkunýja ljóðabók, Bakland, við Hönnu Óladóttur. Viðmælendur: Þórður Helgason og Hanna Óladóttir. Tónlist: Pista (Fresh Start) - Los Bitchos og Good Morning Midnight - Jóhann Jóhannsson Lesari: Pétur Grétarsson Umsjón: Jóhannes Ólafsson

09-30
50:00

Bókatíðindi í 133 ár, Hrunbókmenntir og Emil Hjörvar Peters

Bókatíðindi eru árlegur gleðigjafi fyrir bókmenntaáhugafólk. Þessi mikla skrá er nauðsynlegt hjálpartæki þegar kortleggja á flóðið, ná utan um hvað er að koma út og hvað hefur komið út undanfarin misseri. Útprentaða útgáfan er væntanleg en hún er komin á vefinn. Það er Félag íslenskra bókaútgefenda sem gefur út bókatíðindin, skrá yfir útgefnar bækur og má rekja útgáfu þeirra til ársins 1890 sem þá hétu Skrá yfir eignar og umboðssölubækur Bóksalafélagsins í Reykjavík. Skráin spannar sum sé þrjár aldir og nú verður auðveldara að fletta upp í gömlum bókatíðindum. Við heyrum í Bryndísi Loftsdóttur, framkvæmdastjóra FÍBÚT. Við skoðum viðbragð rithöfunda við fjármálahruninu en 15 ár eru liðin frá örlagaríkum upphafsdögum þess haustið 2008. Á þessum árum hafa bókmenntafræðingar rannsakað eitt og annað sem einkennir bókmenntirnar á árunum eftir. Við gröfum í gullkistu Ríkisútvarpsins til að átta okkur betur á því. Og loks förum við í heimsókn til Emils Hjörvar Petersen rithöfundar sem hefur gefið út sína 10. skáldsögu. Höfundur sem hóf sinn ritferil einmitt á árunum eftir hrun, hann skrifar á mörkum bókmenntagreina og á mörkum miðla, prents og hljóðs, við hittum Emil Hjörvar í lok þáttar og rekjum úr honum garnirnar svo notað sé myndmál sem er eins og beint upp úr einhverri subbulegri hrollvekjunni. Viðmælendur: Bryndís Loftsdóttir, Bergljót Kristjánsdóttir, Guðrún Baldvinsdóttir, Viðar Þorsteinsson, Vera Knútsdóttir, Alaric Hall og Emil Hjörvar Petersen. Tónlist: Pista (Fresh Start) - Los Bitchos, Crash - Högni Egilsson, Triennale - Brian Eno. Umsjón: Jóhannes Ólafsson

10-07
50:00

Alþjóðleg barnabókmenntahátíð, Jessica Love og Italo Calvino

Við verðum í djúpinu í þætti dagsins. Við förum á Mýrina, alþjóðlega barnabókmenntahátíð sem er nýlokið og ræðum við verkefnastjóra hátíðarinnar Veru Knútsdóttur og einn þeirra höfunda sem voru gestir á hátíðinni, bandaríska rithöfundinn, leikarann og myndhöfundinn Jessica Love. Og í djúpinu finnum við líka ítalska rithöfundinn Italo Calvino. 100 ár eru frá fæðingu hans og ný íslensk þýðing er væntanleg á bók hans Borgirnar ósýnilegu frá Brynju Cortes Andrésdóttur. Við ræðum við hana og fleiri um höfundinn og verk hans. Viðmælendur: Vera Knútsdóttur, Jessica Love, Stefano Rosatti, Björn Halldórsson og Brynja Cortes Andrésdóttir. Lesari: Tómas Ævar Ólafsson Tónlist: Pista (Fresh Start) - Los Bitchos, Innan handar - Skúli Sverrisson og Magnús Jóhann. Umsjón: Jóhannes Ólafsson

10-14
52:19

Armeló og Sara og Dagný og ég

Það streyma fram nýjar bækur þessa dagana, þær eru farnar að hlaupa í stafla. Meðal þess sem kom út í vikunni er skáldsagan Armeló eftir Þórdísi Helgadóttur og smásagnasafnið Sara, Dagný og ég eftir Ísak Regal. Þessar bækur eru afar ólíkar en undir báðum liggur samtími okkar eins og hann blasir við, áskoranir fólks, kvíði, margbrotin sjálfsmynd og fleira. Við flettum í þessum tveimur í þætti dagsins og hlýðum á nýja tónlist eftir tónlistardúettinn Ingibjargir sem vinna með ljóð Ingibjargar Haraldsdóttur. Viðmælendur: Þórdís Helgadóttir og Ísak Regal. Tónlist: Lag 1 - Tómas R. Einarsson, Pista (Fresh Start) - Los Bitchos, Paradise Circus - Massive Attack, Chained to a Cloud - Slowdive. Umsjón: Jóhannes Ólafsson

10-21
50:00

Örforlög á Norðurlöndum, Una sameinast Benedikt og Stjörnufallseyjur

Fjallað er um prósaverkið Stjörnufallseyjur eftir Jakub Stachowiak. Draumkennd frásögn um söknuð og sorg sem dregur fram andstæður í hverfulum heimi. Líkamar skjálfa, borgir verða að lófum, hornlausir einhyrningar birtast og gamlar konur baða sig við ljósið í myrkrinu. Marta María Jónsdóttir myndlýsti bókina og Jakub segir okkur allt um verkið í lok þáttar. Við hugum líka að bókaútgáfu og það sérstökum kima hennar útgáfur sem flokkast sem örforlög. Ana Stanichevic sem hefur um árabil kennt við íslensku og menningardeild Háskóla Íslands hefur nýlega lokið doktorsprófi frá skólanum en hún rannsakaði örforlög á Norðurlöndum, aðallega hér á Íslandi og Danmörku. Hún segir okkur frá skilgreiningum og einkennum slíkra útgáfa. Einar Kári Jóhannsson hefur fengist við bóksölu, ritstjórn og útgáfu um nokkurt skeið. Útgáfa sem hann kom að stofnun, Una útgáfuhús náði góðu flugi fyrir nokkrum árum sem flokka má sem örútgáfu en hefur nú sameinast öðru stærra forlagi, Benedikt. Einar Kári segir okkur frá tilurð þess og hugsjónum nýsameinaðs Benedikts. Viðmælendur: Ana Stanicevic, Einar Kári Jóhannsson og Jakub Stachowiak. Tónlist: Pista (Fresh Start) - Los Bitchos, Fall - Sigur Rós. Umsjón: Jóhannes Ólafsson

10-28
50:00

Norðurlandaverðlaun, ritþing um Kristínu Ómarsdóttur og Ból

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt í óperuhúsinu í Osló í vikunni. Joanna Rubin Dranger frá Svíþjóð fékk verðlaunin fyrir bókina Ihågkom oss till liv, sem er í fyrsta sinn frá upphafi verðlaunanna sem myndasaga hreppir þau í þessum flokki. Stóra fréttin fyrir okkur Íslendinga var auðvitað í barna og ungmennaflokki en Rán Flygenring var verðlaunuð fyrir sína myndrænu sögu, Eldgos. Við fáum viðbrögð Jórunnar Sigurðardóttur dagskrárgerðarkonu við hátíðinni og þessum tveimur bókum en Jórunn gerði 8 þætti á Rás 1 um allar tilnefningar til Norðurlandaverðlaunanna í bókaflokkunum tveimur. Við lítum aðeins inn á ritþing Gerðubergs um ska?ldskap og listferil Kristínar Ómarsdóttur, Sjáðu fegurð þína, sem fram fór 28. október í Tjarnarbíói í Reykjavík. Og Steinunn Sigurðardóttir var að senda frá sér sína 11. skáldsögu, Ból, mikla átakasögu konu sem gerir upp ævi sína og örlög, þetta er skáldsaga um ofurást sem getur spillt, áföll og uppgjöf en líka styrk og mátt tungumálsins til þess að ná utan um það sem er svo miklu stærra en við sjálf. Viðmælendur: Jórunn Sigurðardóttir og Steinunn Sigurðardóttir. Tónlist: Pista (Fresh Start) - Los Bitchos, Noktúrna í b-moll ópus 9 númer 1 eftir Frédéric Chopin Umsjón: Jóhannes Ólafsson

11-04
50:18

Umbrot og Duft

Skáldsagan Umbrot barst með nýjum bókavindum nú á dögunum eftir Sigurjón Bergþór Daðason. Þetta er þriðja bók höfundar en Sigurjón hefur áður sent frá sér Hendingskast og Óbundið slitlag. Umbrot segir frá Pétri sem lifir afskaplega venjulegu og tilbreytingarlitlu lífi og starfar við það að smíða gervilimi, hendur fætur og jafnvel andlit. Hann segist ekki kynnast þeim sem fá þessa útlimi en það er eitthvað persónulegt við að smíða eftirlíkingar af líkamshlutum. En þetta kyrrláta líf Péturs tekur svo skyndilega beygju sem leiðir hann í leit að uppruna sínum, hann þarf að huga að systur sinni sem burðast með fortíðina á bakinu og svo er það kona sem kemur aftur óvænt inn í líf hans en óvíst er með framtíð hennar. Bergþóra Snærbjörnsdóttir var að gefa út skáldsöguna Duft sem segir frá Veróníku, einkadóttur vellauðugra líkamsræktafrömuða á Íslandi. Duft er saga konu, saga fjölskyldu og um félagsmótun, áhrif uppeldis, fordóma og gildismat. En í duftinu má finna stóran samfélagsspegil, hvernig hugmyndir geta orðið að þráhyggju, og hvernig við lítum á okkur, á líkama okkar og tengjumst öðrum - eða tengjumst ekki? ?Þægindi eru hið nýja krabbamein í vestrænu samfélagi,? segir á einum stað. Tónlist: Pista (Fresh Start) - Los Bitchos, My body is a Cage - Arcade Fire, Miss Modular - Stereolab Lesari: Lóa Björk Björnsdóttir Umsjón: Jóhannes Ólafsson

11-11
50:21

National Book Awards, MEN og Áslaug Agnarsdóttir

Áslaug Agnarsdóttir þýðandi er nýr handhafi verðlauna Jónasar Hallgrímssonar sem veitt voru á degi íslenskrar tungu 16. nóvember. Áslaug er gestur þáttarins í dag og segir frá tvítyngdum uppvaxtarárum, ást á rússneskum bókmenntum og menningu og sjálfu tungumálinu. Við förum í heimsókn til Sigrúnar Pálsdóttur rithöfundar og sagnfræðings sem var að senda frá sér nýja skáldsögu, MEN - Vorkvöld í Reykjavík. Bókin er stutt en í henni er heilmikill farmur og fjallar á ærslafullan hátt um blaðaviðtal sem fer úr böndunum á svo margan hátt, hún fjallar um útskúfun, hugleysi og hugrekki en líka pólitísk leyndarmál með skírskotun í raunverulega atburði. Og bandarísku bókmenntaverðlaunin The National Book Awards voru afhent voru afhent í 74. sinn við fína gala athöfn í New York á dögunum. Það er stærstu bókmenntaverðlaun Bandaríkjanna ásamt Pulitzer verðlaununum og fá verðlaunabækurnar iðullega mikla athygli. Af fimm verðlaunaflokkum eru það óskálduðu bækurnar og skáldsögurnar sem mest er rætt um, í skáldsagnaflokki var það Justin Torres sem fékk verðlaun fyrir skáldsöguna Blackouts. Við förum yfir það helstu tíðindi hátíðarinnar, þar á meðal yfirlýsingu sem lesin var upp í lokaræðunni um vopnahlé á Gaza. Viðmælendur: Áslaug Agnarsdóttir og Sigrún Pálsdóttir. Lesari: Guðni Tómasson. Tónlist: Pista (Fresh Start) - Los Bitchos, Vorkvöld í Reykjavík - Ragnar Bjarnason með hljómsveit Svavars Gests, Kvällar i Moskvas förstäder - Jan Johansson. Umsjón: Jóhannes Ólafsson.

11-18
50:00

Edgar Allan Poe og Maður í eigin bíómynd

Já, það verður auðn og myrkur í þætti dagsins. Bæði óhugnarlegt myrkur og það sem umlykur fólk í kvikmyndahúsum. Og það verður dálítið um tímaflakk, við verðum mest á 19. og 20. öldinni. Við opnum nýja íslenska skáldsögu eftir Ágúst Guðmundsson sem er þekktastur fyrir kvikmyndaleikstjórn en hann er að skrifa um dramataískan og stormasaman kafla í lífi sænska kvikmyndaleikstjórans Ingmar Bergmans. Kvikmyndaleikstjóri notar skáldsögu til að rýna í höfuð kvikmyndaleikstjóra sem er að rýna í eigið líf, þetta er margbrotið og athyglisvert púsluspil. Og sagna- og kvæða úrval eftir bandaríska rithöfundinn og gotneska rómantíkerinn Edgar Allan Poe hefur í fyrsta sinn litið dagsins ljós, um 200 ára gamlir, sígildir og áhrifamiklir textar sem hafa legið brotakenndir í þýðingarsögu íslands á Poe en hana má rekja til 19. aldar. Edgar Allan Poe var brautryðjandi á sviði smásagnagerðar og segja má upphafsmaður glæpasögunnar sem 200 árum síðar hefur nánast aldrei haft það betra. Sögurnar hans hafa líka haft gríðarleg áhrif á furðusögur og hrollvekjur áratugum saman. En í þessu nýja safnriti frá Dimmu útgáfu eru íslensku þýðingarnar, gamlar og nýjar teknar saman í fyrsta sinn, spennandi tímar fyrir þau sem kunna vel við drungarlegar sögur við kertaljós og dragsúg í skammdeginu. Ástráður Eysteinsson og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson eru ritstjórar verksins og meðal þýðenda setjast niður með mér og rýna í myrkið og ævi Poe. Viðmælendur: Ágúst Guðmundsson, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson og Ástráður Eysteinsson. Tónlist: Pista (Fresh Start) - Los Bitchos, Devil's Trill Sonata - Fritz Kreisler. Lesarar: Guðni Tómasson og Viðar Eggertsson. Umsjón: Jóhannes Ólafsson.

11-25
50:00

Booker-verðlaun, Vandamál vina minna og Effí Briest

Þýska stórvirkið Effí Briest eftir Theodor Fontane sem kom út 1895 var að koma út í íslenskri þýðingu í fyrsta sinn eftir Arthur Björgvin Bollason. Bókin er stór og mikill samfélagsspegill af 19. öldinni í Prússlandi og lífi og tilveru hinnar ungu Effí Briest og fólkinu í kringum hana. Bókin er gjarnan sett í hillu með Önnu Karenínu eftir Leó Tolstoj og Madam Bovarí eftir Gustave Flaubert. Arthur er búsettur í Þýskalandi en var staddur hér á landi þegar Bara bækur fengu hann í heimsókn til að segja betur frá Effí Briest. Við förum niður í miðbæ Reykjavíkur og hittum skáldið Hörpu Rún Kristjánsdóttur sem var að gefa út ljóðabókina Vandamál vina minna. Það er stór og kröftug, femínísk ljóðabók sem hverfist um áföll og erfðir. Talsvert óheflaðri og beittari bók en Harpa hefur áður sent frá sér. Við fáum líka Árna Matthíasson menningarblaðamann til þess að segja frá skáldsögunni Prophet Song sem hlaut Booker-verðlaunin í ár og voru afhent í vikunni. Það var írinn Paul Lynch sem hreppti verðlaunin í ár fyrir sína rammpólitísku dystópíu. Viðmælendur: Árni Mattíasson, Harpa Rún Kristjánsdóttir og Arthúr Björgvin Bollason. Lesari: Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir. Tónlist: Pista (Fresh Start) - Los Bitchos. Umsjón: Jóhannes Ólafsson

12-02
53:57

Deus, Glampar, Veltigrjót og Stelpur stranglega bannaðar!

Skáldkonurnar Kristín Arngrímsdóttir og Sigrún Björnsdóttir gefa á þessu hausti út smáprósa- og ljóðabækur. Kristín með prósabókina Glampar sem byggð er á endurminningum hennar frá uppvaxtarárunum á prestsetrinu Odda á Rangárvöllum, þar sem dregin eru upp myndbrot af staðnum, fjölskyldu og nágrönnum, af hversdagsleika og hátíðum. Sigrún Björnsdóttir sendi frá sér Veltigrjót, sem er hennar fimmta ljóðabók. Í ljóðunum fléttar hún saman ljóðabálki, sem spratt upp úr fylgiseðlum með lyfjum og eru nokkurs konar særingar, við önnur ljóð og hugleiðingar um steina, lífsháskann, ástina og gleymsku. Og svo er það guðinn í tölvunni. Í nýjustu skáldsögu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur, Deus, er fjallað um sögur fólks úr ekki svo fjarlægri framtíð eða bjöguðum samtíma fléttaðar saman í hugleiðingum um gervigreind, guð og allt. Við byrjum á viðtali við Emblu Bachmann sem hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka fyrir fyrstu skáldsögu sína Stelpur stranglega bannaðar! Embla, sem er 17 ára, er yngsta manneskjan til að hljóta slíka viðurkenningu. Anna María Björnsdóttir settist niður með Emblu og spurði hana út í þessa vel heppnuðu spútník frumraun. Viðmælendur: Kristín Arngrímsdóttir, Sigrún Björnsdóttir, Sigríður Hagalín Björnsdóttir og Embla Bachmann. Lesendur: Alexander Kristjánsson og Kristján Freyr Halldórsson. Tónlist: Pista (Fresh) - Los Bitchos, Space Song - Beach House. Umsjón: Jóhannes Ólafsson.

12-09
50:00

Flagsól og Eitur

Ljóðabókin Flagsól kom út fyrir skemmstu og beinir hún sjónum sínum að íslenskum sveppum. Það eru þær Melkorka Ólafsdóttir skáld og Hlíf Una Bárudóttir teiknari sem gefa yfir 30 íslenskum sveppum rödd á afar listrænan hátt. Þar fléttast saman ljóð, teikningar og náttúruvísindi. Hvert ljóð er um eina sveppategund og endurspeglar ljóðið hugsun um sveppinn en speglar líka okkur mannfólkið og náttúruna sem heild. Sveppirnir, þessir hlutar vistkerfanna sem við gefum ekki endilega nægan gaum, eins og svo margt í mannlegu samfélagi sem við veitum ekki athygli. Eitur er nýjasta glæpasaga Jóns Atla Jónassonar, handritshöfundar og leikskálds. Í nýju bókinni heldur Jón Atli áfram sögu utangarðslöggana og ólíkindatólana Dóru og Rado. Þau fá í hendur morðrannsókn sem leiðir lesendur inn í heim fíkninnar og lyfjaiðnaðarins, sem hefur gríðarleg áhrif og völd. Það eru fáir sem ekki hafa heyrt minnst á þann skaða sem ópíóðalyf af ýmsum gerðum hafa haft á samfélag víða um heim, líka hér á okkar litlu eyju. Viðmælendur: Melkorka Ólafsdóttir, Hlíf Una Bárudóttir og Jón Atli Jónasson. Tónlist: Changing Winds - Alexandra Stréliski, XI - Magnús Jóhann, Pista (Fresh Start) - Los Bitchos, Gnomes - Made in M & Walterwarm, Ullblekill - Kammersveitin. Umsjón: Jóhannes Ólafsson.

12-16
50:00

Hamfarir og Kjöt

Auður Aðalsteinsdóttir, doktor í bókmenntafræði, var að senda frá sér nýja bók. Hamfarir í bókmenntum og listum - Náttúra og loftslag jarðar eru þegar farin að umbreytast vegna loftslagsbreytinga, fjöldaútry?mingar tegunda og annarra tengdra umhverfisógna. Í nýju bókinni fjallar Auður um það hvernig aukin meðvitund um þessar umhverfiskrísur og um víxlverkun allra þátta í vistkerfi okkar, mennskra og ekki-mennskra, birtist í samtímabókmenntum og -myndlist. Umhverfishugvísindi og vistrýni hafa verið að setjast rækilega í sessi á sviði hugvísinda, grænn lestur á bókmenntir og listir. Við förum líka í Melabúðina í Vesturbæ Reykjavíkur. Ekki til þess að versla í matinn. Ástæðan er sú að eftirminnilegt atriði í nýju skáldsögu Braga Páls Sigurðssonar, Kjöt, gerist einmitt hér við kjötborðið þar sem aðalsögupersónan og útbrunni myndlistarmaðurinn, Sturlaugur fer í svokallað kjötrof. Það er allt í kjölfarið á og í tengslum við hugmynd hans að fremja listgjörning sem felst í því að éta stóran hluta af sjálfum sér. Eitthvað sem hristir upp í myndlistarheiminum, éta sjálfan sig og láta sig hverfa, éta sjálfan sig fyrir listina. Eitthvað sem Dúnkí, þaulreynd framakona úr myndlistarheiminum og klappstýra Stulraugs til margra ára grípur á lofti og hvetur listamanninn svanga áfram til að gera. Viðmælendur: Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur og Bragi Páll Sigurðarson rithöfundur. Tónlist: Lotus Flower - Radiohead, Pista (Fresh Start) - Los Bitchos, Plateau - Meat Puppets. Lesari: Guðmundur Pálsson. Umsjón: Jóhannes Ólafsson

12-30
50:00

SÓN í 20 ár, Munnbiti og Ljóðstund með Arnari

Ágætu hlustendur, árið 2024 hefst á ljóðum og ást. Skortur er á rannsóknum á samtímaljóðum að mati Soffíu Auðar Birgisdóttur, bókmenntafræðings og gagnrýnanda sem nýlega tók við ritstjórn SÓN tímarits um ljóðlist og óðfræði. SÓN hefur verið gefið út af Óðfræðifélaginu Boðn frá árinu 2003 eða í 20 ár og við setjum niður með Soffíu Auði hér rétt á eftir, kynnumst þessu rótgróna tímariti sem samt hefur verið viss kafbátur í íslenskri ljóðalögsögu en framtíðarsýn nýja ritstjórans er skýr og kallar Soffía eftir aukinni umfjöllun og umræðu um samtímaljóðlist. ?Eitt er það orð sem losar okkur undan öllum þunga og sársauka lífsins. Þetta orð er ást,? sagði forngríska leikskáldið Sófókles. Ástarsögufélagið er nýr hópur höfunda og áhugafólks um ástarsögur sem hefur gefið út lítið rit sem kallast Munnbiti og geymir sögur ljóð og prósa eftir 30 höfunda. Þar eru dregnar upp ótal birtingarmyndir ástarinnar; ást á ostum, djamminu, árabátum, ástleysi og sjálfsást, svo eitthvað sé nefnt. Þetta er fyrsta bókaútgáfa félagsins en meðlimir þess segjast rétt að byrja í sínum athugunum á ástina í gegnum skáldskap. Sem er nauðsynlegt mótvægi við öllu því öllu því þunga, erfiða og óréttláta í heiminum segja þau Guðrún Friðriksdóttir og Andri Freyr Sigurpálsson, sem koma til mín og segja mér frá Munnbita. Og loks er það ekki bara ást á ljóðum heldur upplestri þeirra. Fátt fer betur í eyrað en vel lesið ljóð. Arnar Jónsson stórleikari hefur lengi haft þann draum að gefa út ljóðaplötu og nú fyrir skemmstu kom út tvöföld vínylplata, Ljóðastund með Arnari þar sem hlusta má á leikarann raddmikla lesa valin ljóð. Hlýðum á ljóð hér undir lokin og viðtal við Arnar um plötuna. Umsjón: Jóhannes Ólafsson

01-06
52:05

Auður Haralds árið 1979, Einurð og Megir þú upplifa

Við hefjum þáttinn á Auði Haralds sem lést í byrjun árs, höfund sem gerði allt vitlaust í bókmenntunum 1979 með bókinni Hvunndagshetjan. Auður var rithöfundur og grínisti sem með sínum flugbeitta blýanti horfðist í augu við kvaðir og tepruskap borgarastéttarinnar og hæddist að úreltum hugmyndum um hvað má og á að gera við líkama sinn og hugsanir. Fyrsta skáldsaga Auðar, Hvunndagshetjan: þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn, kom út árið 1979 og vakti strax mikla athygli. Hún opnaði umræðu í samfélaginu um heimilisofbeldi og kvennakúgun. Á útgáfuári bókarinnar gerði Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur og ritstjóri útvarpsþátt hér í ríkisútvarpinu þar sem lesið var upp úr nýjum bókum og ræddi við höfundana. Auður var þar meðal upplesara og við ætlum að hefja þáttinn á litlu broti úr þessum þætti, förum á útvarpsbylgjunum aftur til 1979 þegar Hvunndagshetjan reið um héruð… Næst opnum við nýja ljóðabók sem Draumey Aradóttir var að senda frá sér og kallast Einurð - þar heldur lesandinn inn í móðurlíf þaðan sem ljóðmælandi er staddur í flestum ljóðanna. Þetta er bók um upphafið, um það sem við erfum, kynslóðaáföll, og um hughrif og kenndir sem móta einstaklinginn á fyrsta og viðkvæmasta skeiði ævinnar í móðurlífinu. Þetta eru heimspekileg ljóð um það hvernig persóna verður til, ekki aðeins af holdi og blóði heldur allar þær óteljandi breytur sem gera okkur okkur. Einurð er sjöunda bók Draumeyjar Aradóttur og með Einurð og Varurð ljóðabók frá 2022 kemur Draumey fílefld inn á ljóðasviðið eftir nokkuð hlé en hún hefur verið að gefa út þýðingar og ljóð jöfnum höndum auk barna- og unglingabóka. Ég settist niður með Draumeyju og vitandi það að hún er logophile eða orðaunnandi, orðafíkill nánast fannst mér liggja beinast við að spyrja út í nafn bókarinnar, Einurð. „Megir þú lifa áhugaverða tíma,“ segir kínverska bölbænin fræga og var það eitt af því sem skaust upp í hugann við að sjá titilinn á nýrri bók Bjarna Þórs Péturssonar, Megir þú upplifa, sem er jafnframt hans fyrsta bók. Bjarni Þór hafði áður stungið niður penna, til að mynda í blöð og tímarit en hér tekst hann á við form stuttu skáldsögunnar, nóvelluna. Sagan er fremur hefðbundin athugun á huga karls í krísu, tilvistarlegt ferðalag hans í leit að sjálfum sér og fegurðinni. Textinn er snarpur og fullur af vísunum í poppmenningu, tónlist og skáldskap sem dregur upp mynd af manni á krossgötum sem þráir frelsi æskunnar og fegurð innan um harm, missi og gráan hversdagsleika.

01-13
50:42

Land næturinnar og Lexíurnar: Stafrófskver

„Orðin láta ekkert uppi, svipt höfundi sínum. Þau standa bara fyrir sig sjálf núna. Lesið og þér munið finna,“ stendur skrifað í nýjustu bók Magnúsar Sigurðssonar, Lexíurnar, stafrófskver, bók um lestrarlistina, lærdóm, orð og notkun þeirra til að öðlast skiling á tilverunni. Við ætlum að ræða við Magnús í þætti dagsins um lexíur og ljóðaformið. Land næturinnar er nýjasta skáldsaga Vilborgar Davíðsdóttur sem heldur áfram þar sem frá var horfið í bókinni Undir yggdrasil frá 2020. Örlögin leiða Þorgerði Þorsteinsdóttur, sonardóttur Auðar djúpúðgu, í Austurveg um Garðaríkin svokölluðu. Sögusviðið eru fljótin og árnar sem báru norræna menn suður til Svartahafs og alla leið til Konstantínópel. Við kynnum okkur slóðir víkinga í Austur-Evrópu í lok þáttar og förum í heimsókn til Vilborgar Davíðsdóttur.

01-20
50:06

Ró í beinum og Paradísarmissir Miltons

Guð er að finna víða í bókmenntunum og leitina að guði. Einhverjir hafa fundið guð og halda sér fast í faðminn - aðrir hafa glatað honum af ótal ólíkum ástæðum. Guð bókmenntanna er margvíslegur og fer það alveg eftir því hvar maður drepur niður fæti - hvort það þyki almennt fínt að yrkja um guð. Og þá hvaða guð, eða guði? Guð í einhverri mynd verður einn af lyklum okkar að efni þáttarins í dag. Við ætlum að dýfa okkur í höfundarverk íslensks skálds sem við heyrðum í hér áðan tala um hvernig það er að yrkja um guð, í viðtali árið 2011... Ísak Harðarson komst í snertingu við guð á sínum ferli og fann ljóðræna, róttæka leið til þess að tjá sig um þetta tilvistarlega og trúarlega ferðalag á guðs vegum. Ísak Harðarson var afkastamikið og fjölhæft skáld, skáld íróníu og glettni en kljáðist líka við stóru spurningarnar í leit íhugull innávið. Nýtt ljóðasafn eftir Ísak leit dagsins ljós nýlega og við flettum í því. Svo hverfum við líka rúm 350 ár aftur í tímann og höldum til Englands þar sem John Milton, skáldið blinda orti söguljóðið Paradísarmissi, lykilverk enskra bókmennta, ljóð sem ort var á miklum tímamótum og markaði líka tímamót. Ljóðið var fyrst þýtt á íslensku af Jóni Þorlákssyni á Bægisá en splunkuný þýðing kom til jarðar fyrir skemmstu eftir Jón Erlendsson. Paradísarmissir fjallar um stóru sögu kristninnar, söguna sem enn er verið að segja, af syndafallinu, freistingum og breyskleika, englum og djöflum, upphafinu og endinum. Viðmælendur: Þórður Sævar Jónsson, Kristín Svava Tómasdóttir, Ástráður Eysteinsson og Jón Erlendsson. Umsjón: Jóhannes Ólafsson

01-27
52:57

Recommend Channels