Discover
Flugvarpið
Flugvarpið
Author: Jóhannes Bjarni Guðmundsson
Subscribed: 201Played: 5,343Subscribe
Share
© All rights reserved
Description
Fjallað er um flugmál á Íslandi, viðburði, málefni og áhugavert fólk tekið tali. Jói Baddi hefur langa reynslu sem atvinnuflugmaður og flugkennari og starfaði einnig um tíma við fjölmiðla. Flugvarpið er þannig góður farvegur til að sameina þetta tvennt - flugið og fjölmiðlun.
136 Episodes
Reverse
Rætt er við Björgu Jónasdóttur fyrrverandi flugfreyju hjá Icelandair, Flugleiðum og þar áður Loftleiðum um flugfreyjustarfið og ýmsa atburði á hennar langa og fjölbreytta flugferli. Björg hóf störf árið 1972 þegar hún var aðeins tvítug að aldri. Hún segir meðal annars frá fyrstu flugferðunum á DC-8, lærdómsferlinu að vinna í pílagrímaflugi á sjöunda áratugnum, leiguflugi á ýmsum fáförnum og framandi slóðum ásamt mörgu fleiru sem á daga hana dreif í starfinu vítt og breitt um heiminn. Björg hóf ferilinn árið 1972 og óhætt að segja að miklar breytingar hafi átt sér stað í starfsumhverfi flugfreyjunnar á árunum og áratugunum þar á eftir, en um leið eru aðrir þættir sem hafa haldist óbreyttir.
Rætt er við bræðurna Snorra og Jón Karl Snorrasyni um landssöfnun sem nú er í gangi til að bjarga flugvélaflaki þristsins Gunnafaxa af Sólheimasandi. Þeir bræður hafa á undanförnum vikum unnið að verkefninu ásamt Ólafi Eggertssyni bónda á Þorvaldseyri. Gunnfaxi var í eigu Þristavinafélagsins og hafði verið í geymslu í skýli á Keflavíkurflugvelli um árabil. Eigendafélag Sólheimasands keypti vélina fyrr á þessu ári til að koma í stað þeirrar sem brotlenti á Sandinum fyrir rúmlega hálfri öld og hefur verið mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Þeir Snorri og Jón Karl segjast hóflega bjartsýnir á að takist að safna nægu fé til að koma vélinni í skjól á Skógum en biðla til áhugasamra, bæði einstaklinga og fyrirtækja að taka þátt í verkefninu.
Hægt er að leggja málefninu lið með því að leggja inn á söfnunarreikning Vina Gunnfaxa: kt: 621025-1710 og reikningsnúmer: 0515-26-989860.
Rætt er við Heiðu Njólu Guðbrandsdóttur verkfræðing og forstöðumann hjá Icelandair um þann gríðarlega kostnað sem fellur á íslensk flugfélög í formi umhverfisskatta- og gjalda, en hún er sérfræðingur í margs konar kerfum sem sett hafa verið á flugfélögin í nafni loftlagsmála. Heiða Njóla útskýrir í þættinum hvernig ETS viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir virkar og hver þróunin hefur verið og fer yfir plönin framundan. Annar vaxandi kostnaðarliður í rekstri flugfélaga er SAF eða sjálfbært eldsneyti og hefur ESB sett reglur um að notkun á því skuli margfaldast á næstu árum. Þá er einnig til kerfi á vegum ICAO Alþjóðaflugmálastofnunarinnar sem kallast CORSIA og heldur utan um losun gróðurhúsalofttegunda í alþjóðaflugi, svo eitthvað sé nefnt. Öll þessi kerfi þýða marga milljarða króna kostnað á ári fyrir félag eins og Icelandair og útfærslan þýðir að Ísland ber langhæstu kostnaðarbyrðar allra landa Evrópu í formi loftlagsskatta. Núverandi plön og regluverk gerir ráð fyrir að þessi kostnaður muni bara hækka á næstu árum og það verulega.
Áhugavert og upplýsandi viðtal um stöðu flugsins í þessu samhengi.
Rætt er við Arnar Má Magnússon nýjan framkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs Icelandair, en hann tók nýlega við stöðunni samhliða skipulagsbreytingum sem gerðar voru hjá félaginu til að einfalda yfirstjórnina. Arnar Már er atvinnuflugmaður og hefur að auki langa reynslu af flugrekstri. Hann var forstjóri Play og einn af stofnendum þess, var yfirflugstjóri og flugrekstrarstjóri hjá WOW og þar áður starfaði hann sem flugstjóri hjá flugfélaginu RyanAir.
Arnar fer í þættinum stuttlega yfir sinn feril, aðdragandann að stofnun Play og ekki síst um stöðu Icelandair í dag og stór verkefni sem þar blasa við til að koma félaginu í sjálfbæran rekstur aftur.
Rætt er við Ragnar Guðmundsson flugvélaverkfræðing og rannsakanda hjá flugsviði Rannsóknarnefndar samgönguslysa um fjölgun alvarlegra flugatvika á síðustu árum. Þá hefur fjölgun alvarlegra flugumferðaratvika á síðustu misserum orðið tilefni til sérstakrar umræðu á fundum RNSA og Samgöngustofu og ýmsar tillögur í öryggisátt eru þegar komnar til framkvæmda. Ragnar hefur starfað í yfir 25 ár í fluginu hérlendis og þar af í 21 ár við rannsóknir flugslysa og alvarlegra flugatvika. Hann miðlar hér stuttlega af sinni áratuga reynslu og rýnt er sérstaklega í skýrslu RNSA um alvarlegt flugatvik sem varð á breiðþotu yfir Íslandi í febrúar 2023. Draga má mikinn lærdóm af því sem þar gerðist og atvikið hefur þegar stuðlað að ýmsum breytingum til hins betra.
Rætt er við Jóhann Pétur Wium Magnússon flugsálfræðing í tilefni af áhugaverðu erindi hans á flugöryggisráðstefnunni Reykjavik Flight Safety Symposium sem haldin var nýverið. Geðheilbrigðismál hafa á síðustu árum fengið meiri athygli í fluginu eins og víða annars staðar. Nýjar reglur hafa verið settar um eftirlit og flugrekendum einnig gert að hafa úrræði til staðar fyrir sitt starfsfólk. Jóhann Pétur segir að almennt sé fólk að vakna til vitundar um andlega heilsu og umræðan sé af hinu góða því hún vinni gegn fordómum.
Rætt er við Boga Nils Bogason forstjóra Icelandair í tilefni af uppgjöri félagsins eftir fyrstu 9 mánuði ársins 2025. Þrátt fyrir auknar tekjur og ýmis jákvæð teikn í rekstrinum olli rekstrarniðurstaðan vonbrigðum og spáð er tapi á rekstri félagsins í árslok. Eftir 8 ár af ósjálfbærum rekstri segir forstjórinn nauðsynlegt að snúa rekstrinum við eigi síðar en á næsta ári. Hann segir nauðsynlegt að félagið verði samkeppnisfært og gagnrýnir misvitur gjöld í nafni umhverfisins sem virki ekki og valda félaginu gríðarlegum kostnaði. Bogi varar líka við auknum sköttum á flugrekstur og ferðaþjónustuna og gagnrýnir harðlega vinnubrögð innviðaráðherra nýlega þegar sett var reglugerð eftirá í kjölfar falls Play. Ýmis önnur viðfangsefni ber á góma í spjallinu við Boga eins og breytingar á flotamálum, kjarasamninga og áframhaldandi harða samkeppni við stærstu flugfélög Evrópu og Norður-Ameríku.
Hér er á ferðinni upptaka frá afmælisviðburði Flugvarpsins í tilefni af 5 ára afmæli hlaðvarps Íslendinga um flugmál. Ljúfir tónar jasskvintetts Jóns Harðar flugstjóra tóku á móti gestum og á sviðinu var tekið hressilegt spjall um flugmálin við nokkra frábæra viðmælendur og sögur sagðar. Fyrst stigu á sviðið tveir menn sem hafa með orðum og gerðum verið mikið í umræðunni síðustu vikurnar, þeir Jón Þór Þorvaldsson formaður FÍA og Eyjólfur Ármannsson ráðherra flugmála. Að því búnu ræddu þau Linda Gunnarsdóttir yfirflugstjóri Icelandair og Matthías Sveinbjörnsson forseti Flugmálafélagsins um ógnir og tækfæri í flugheiminum. Baldvin Már Hermannsson forstjóri Air Atlanta var svo aðalgestur kvöldsins og fór yfir ótrúlega öfluga starfsemi félagsins víða um heim, umbreytingu félagsins á síðustu árum og hvernig framtíðarhorfurnar blasa við honum. Að endingu steig Jóhann Skírnisson fyrrum flugstjóri og "bush pilot" á svið og sagði nokkrar skemmtisögur.
Rætt er við norska flugreinandann Hans Jørgen Elnæs um gjaldþrot Play og síbreytilega stöðu á flugmarkaðnum í Evrópu. Hann segir það hafa komið á óvart að Play hafi farið í þrot svo skömmu eftir endurfjármögnun íslenska félagsins. Markaður fyrir Airbus flugvélar af þeirri gerð sem Play notaði er góður að mati Hans Jørgen og verður forvitnilegt að sjá hvaða leiðir eru færar fyrir leigusala vélanna í framhaldinu. Hann ræðir líka stuttlega um harða samkeppni á norður Atlantshafinu og hvernig það hafi gert félagi eins og Play erfitt fyrir.
Rætt er við Karl Ó. Karlsson lögmann FÍA og sérfræðing í vinnurétti um áralangar deilur Bláfugls og Félags íslenskra atvinnuflugmanna fyrir dómstólum, eftir að 11 flugmönnum Bláfugls var sagt upp störfum og verktakaflugmenn ráðnir í þeirra stað á mun lægri kjörum. Bláfugl skilaði inn íslensku flugrekstrarleyfi árið 2024 og var lýst gjaldþrota fyrr á þessu ári. Karl segir frá stöðu málsins núna og hvernig umgengni Bláfugls um kjarasamninga hafi umturnast eftir að Avia Solutions eignaðist félagið. Fyrrum flugmenn félagsins höfðu fengið dæmdar bætur vegna ólögmætra uppsagna og nú hefur þeim kröfum verið lýst í þrotabúið. Karl reifar málið frá ýmsum hliðum og ræðir um misjafnt ráðningarsamband flugmanna við flugrekendur. Viðtalið var tekið upp skömmu fyrir fall flugfélagsins Play en átakamálin í Bláfuglsdeilunni hafa nokkra skírskotun til umræðuefna núna í tengslum við gjaldþrot Play.
Rætt er við Gregory Fletcher flugmanninn sem nauðlenti Douglas C-117D flugvél bandaríska sjóhersins á Sólheimasandi í nóvember 1973. Fletcher sótti Ísland heim nýverið og fór þá á staðinn aftur í fyrsta sinn í rúma hálfa öld. Af því tilefni sló Flugvarpið á þráðinn til hans, til að heyra hans sögu af þessu einstaka afreki þar sem Douglas vélinni var svifið úr erfiðum veðurskilyrðum yfir Vatnajökli og alla leið niður á Sólheimasand þar sem tókst að magalenda vélinni án þess að nokkrum þeirra sjö sem um borð voru yrði meint af.
Rætt er við Frosta Heimisson eiganda og framkvæmdastjóra Velocity Airport Solutions sem hefur náð eftirtektarverðum árangri í að hanna ljósabúnað fyrir flugvelli. Frosti á sinn bakgrunn í fluginu hérlendis, starfaði um tíma hjá ISAVIA og TERN og hefur á síðustu árum náð að hasla sér völl í fremstu röð þeirra sem geta boðið nýstárlegar lausnir fyrir margs konar tæknibúnað á flugvöllum. Fyrirtæki hans mun í október n.k. sýna í fyrsta sinn nýja byltingarkennda hönnun á brautarljósum fyrir flugvelli á alþjóðlegri sýningu í Munchen og Frosti hefur fulla trú á að sú framleiðsla færi fyrirtæki hans í fremstu röð framleiðanda fyrir flugbrautarljós í heiminum innan fárra ára. Frosti er búsettur í Svíþjóð en kíkti í spjall í Flugvarpið þegar hann var á landinu nýlega.
Rætt er við Ásgeir Bjarna Lárusson framkvæmdastjóra CAE Icelandair training í Hafnarfirði um breytingar á starfseminni í tengslum við nýjan flughermi af gerðinni Airbus 320. Nýi hermirinn hefur nú hlotið alla formlega vottun frá eftirlitsaðilum og er tilbúinn til notkunar. Ásgeir Bjarni fer yfir þetta ferli og segir frá öflugri starfsemi í þjálfunarsetrinu sem hann hefur stýrt síðustu árin, en hann hefur áralanga reynslu í ýmsum störfum innan Icelandair.
Rætt er við Önnu Björk Bjarnadóttur framkvæmdastjóra þjónustu og rekstrar ISAVIA á Keflavíkurflugvelli en undir hennar svið falla mörg fjölbreytt verkefni á flugvellinum. Má þar nefna hreinsun og viðhald flugbrauta, turninn í Keflavík, öryggisleit, flugvernd og margs konar þjónusta við farþega. Anna Björk fer í þættinum vítt og breitt yfir verkefnin í Keflavík og hvernig ISAVIA hefur breytt sinni nálgun á síðustu árum í allri þjónustu við flugfélögin og farþega, en á sama tíma að tekist á við áskoranir sem fylgja stöðugum vexti í flugumferð um völlinn.
Í þættinum er rætt við Skúla Jón Sigurðarson sem var brautryðjandi í flugslysarannsóknum á Íslandi um áratuga skeið. Hann vann ötullega að flugöryggismálum í gegnum störf sín hjá Flugmálastjórn Íslands þar sem hann hóf störf árið 1965 og tók síðar þátt í að setja á fót Rannsóknarnefnd flugslysa. Í um 35 ár vann Skúli Jón fórnfúst starf í að rannsaka orsakir næstum allra flugslysa sem urðu hérlendis og naut alla tíð mikillar virðingar fyrir störf sín.
Skúli Jón fer stuttlega í þættinum yfir sinn feril og segir meðal annars frá áhugaverðum og erfiðum slysum þar sem hann kom að og lýsir um leið nokkrum samferðamönnum sínum í störfum hjá Flugmálastjórn eins og Agnari Kofoed-Hansen og Sigurði Jónssyni, sem ætíð var kallaður Siggi flug.
Rætt er við Jose Alvarado flugstjóra hjá Air Atlanta í þessum þætti, en hann á stómerkilega sögu að baki og hefur á sinni starfævi unnið fyrir fjölda flugfélaga um allan heim og einnig fyrir öll stærstu íslensku flugfélögin, Icelandair, WOW, Play og Air Atlanta. Jose segir frá uppruna sínum og fjölskylduaðstæðum í Hondúras þaðan sem hann flutti ungur að árum ásamt íslenskri kærustu og saman fengu þau vinnu hjá Air Atlanta sem flugfreyjur á meðan Jose steig sín fyrstu skref í flugnáminu. Jose og faðir hans höfðu misjafna sýn á framtíðina og faðir hans sá fyrir sér að sonurinn tæki við rekstri fjölskyldufyrirtækisins, þannig að eftir að Jose hleypti heimdraganum var enga hjálp að fá úr þeim ranni. Jose lét samt ekkert stoppa sig í að láta drauminn um að verða flugmaður verða að veruleika. Hann lærði til flugmanns hjá Flugskóla Helga Jónssonar og segir í þættinum frá ýmsum merkilegum og áhugaverðum atburðum á sínum flugmannsferli.
Brynhildur Ásta Bjartmarz þyrluflugmaður segir hér frá ýmsum áhugaverðum hliðum á starfinu en hún er eina konan í 12 manna hópi þyrluflugmanna Landhelgisgæslu Íslands. Hún segir frá nokkrum af þeim fjölbreyttu verkefnum sem hún og kollegar hennar í flugsveit LHG fást við, ræðir kosti og galla vinnunar og fer yfir ýmis erfið útköll sem hún hefur tekist á við. Brynhildur hefur líka starfað að kjarasamningsmálum fyrir flugmannahópinn gagnvart ríkinu og þar er baráttan stöðug og nýlega þurfti miðlunartillögu sáttasemjara til að höggva á hnútinn og koma á samningi. Áhugavert spjall við brautryðjanda í hópi flugkvenna í þyrlusveit landhelgisgæslunnar.
Rætt er við Arnar Hjálmsson formann Félags íslenskra flugumferðarstjóra um stöðu mála í stéttinni. Nokkuð hefur verið um tafir í flugumferð í sumar vegna manneklu á starfsstöðvum flugumferðarstjóra þegar ekki fæst fólk í aukavinnu. Síðasti kjarasamningur flugumferðarstjóra rann út í upphafi þessa árs og deilan er hjá ríkissáttasemjara. Arnar segist samt vongóður um að úr þessari stöðu rætist fljótlega og að samningar takist. Í þættinum er einnig fjallað nýleg tilvik þar sem tölvubilanir hafa valdið verulegri röskun á alþjóðlegu flugi í íslenska flugstjórnarsvæðinu. Arnar segir líka aðeins frá störfum flugumferðarstjóra og hvernig þau hafa breyst á undanförnum árum með tilkomu nýrrar tækni og ýmislegt fleira.
Rætt er við Sylvíu Kristínu Ólafsdóttur framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Icelandair sem er lang fjölmennasta og stærsta svið innan fyrirtækisins. Undir hennar stjórn hefur náðst góður árangur á mörgum sviðum rekstrarins eins og að lækka einingakostnað, framúrskarandi stundvísi og vel heppnuð innleiðing á Airbus flugvélum. Eins og venjulega eru stöðugt nýjar áskoranir í rekstrinum bæði hér heima og erlendis og Sylvía ræðir hér um hluta af þeim fjölmörgu verkefnum sem hún og hennar teymi eru og hafa verið að vinna að innan félagsins. Skömmu fyrir upptöku þáttarins var tilkynnt um að Sylvía hefði verið ráðin sem nýr forstjóri Nova og mun hún því láta af störfum hjá Icelandair síðar á þessu ári.
Rætt er við Eyjólf Ármannsson innviðaráðherra og ráðherra flugmála á Íslandi. Farið er vítt og breitt yfir sviðið um málefni flugsins og m.a. rætt um varaflugvallagjaldið og uppbyggingu flugvallakerfisins, málefni innanlandsflugsins og Reykjavíkurflugvallar, ISAVIA og uppbyggingu í Keflavík, menntamál flugsins og almennt um stefnu stjórnvalda í þessari stóru atvinnugrein okkar. Eyjólfur hefur vakið athygli fyrir skelegga framgöngu fyrir hagsmunum flugsins og talað opinskátt og af skynsemi þegar kemur að málefnum Reykjavíkurflugvallar og fleira. Hann vill efla Ísland sem flugþjóð allt frá grasrótinni og upp í alþjóðaflugið og tryggja samkeppnishæfni íslenskra flugfélaga.
























þarna gæti nú fólk verið að rugla saman launum og tekjum...