DiscoverFlugvarpið
Flugvarpið
Claim Ownership

Flugvarpið

Author: Jóhannes Bjarni Guðmundsson

Subscribed: 186Played: 4,200
Share

Description

Fjallað er um flugmál á Íslandi, viðburði, málefni og áhugavert fólk tekið tali. Jói Baddi hefur langa reynslu sem atvinnuflugmaður og kennari og sameinar hér áhuga sinn á flugi og fjölmiðlum.
92 Episodes
Reverse
Rætt er við þá Benóný Ásgrímsson, Júlíus Ó. Einarsson og Pál Halldórsson en þeir eru höfundar nýrrar bókar sem heitir Til taks – þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands – fyrstu 40 árin. Í þættinum er farið yfir aðdraganda þess að þeir réðust saman í þessi skrif og stiklað á nokkrum þáttum úr efni bókarinnar.
Flugöryggismál eru viðfangsefni þessa þáttar. Rætt er við þá Jón Hörð Jónsson formann Öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Matthías Arngrímsson skólastjóra Geirfugls og nefndarmann í ÖFÍA um ýmislegt sem hæst ber í flugöryggismálum um þessar mundir. Tilefnið er árleg flugöryggisráðstefna – Reykjavik Flight Safety Symposium sem haldin verður 10. október n.k. og í þættinum er tæpt á helstu viðfangsefnum ráðstefnunnar í ár eins og GPS truflunum í flugi og netárásum. Jón Hörður og Matthías telja ýmislegt gagnrýnivert í nýrri skýrslu varðandi mögulegt flugvallarstæði í Hvassahrauni og í tengslum við það er einnig farið yfir hvernig stöðugt hefur verið þrengt að Reykjavíkurflugvelli mörg síðustu ár. Í þættinum er einnig fjallað um möguleg áhrif vindmylla á flugöryggi, en áætlanir eru uppi um stóra vindmyllugarða bæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og víða um land.
Sigrún Björk Jakobsdóttir er framkvæmdastjóri innanlandsflugvalla hjá ISAVIA og ræðir í þessum þætti um þau fjölmörgu verkefni sem hún er að fást við. Um innanlandsflugvellina á Íslandi fara um 700 þúsund farþegar á ári og þrátt fyrir smæðina er kerfið afar mikilvægt fyrir alla landsmenn, en um leið brothætt að sögn Sigrúnar. Hún gagnrýnir hvernig stöðugt er þrengt að Reykjavíkurflugvelli og skilur ekki hvers vegna sjónarmið sem varða flugöryggi skuli ekki fá betri hljómgrunn. Sigrún Björk fer einnig yfir uppbyggingu á Akureyrarflugvelli og ræðir um ýmsa aðra flugvelli, ekki síst út frá mikilvægi þeirra í sjúkraflugi ef slys verða út um landið.
Rætt er við Baldvin Má Hermannsson forstjóra Air Atlanta um starfsemi fyrirtækisins og hvernig það hefur vaxið og dafnað á allra síðustu árum. Flugfélagið var eitt fárra sem var á fullu í covid faraldrinum og á undraskömmum tíma tókst að auka vægi fraktflugs mjög hratt þegar botninn datt úr farþegafluginu. Atlanta er í dag með 11 Boeing 747 breiðþotur í fraktflutningum um allan heim og að auki 6 Boeing 777 vélar í farþegaflutningum. Baldvin Már ræðir hér hvernig félagið hefur oft mætt erfiðri samkeppni í gegnum tíðina og hvernig íslensk þekking, reynsla og gæði í flugrekstri hefur fleytt félaginu á þann stað sem það er á í dag.
Rætt er við Sveinbjörn Indriðason forstjóra ISAVIA en fyrirtækið er í lykilhlutverki í flugmálum landsins með rekstri og uppbyggingu á innviðum fyrir flugið. Sveinbjörn fer yfir reksturinn á Keflavíkurflugvelli, áskoranir með auknum fjölda farþega, einkum tengifarþega, stórframkvæmdir og vöxtinn framundan þrátt fyrir að ferðamönnum til Íslands fjölgi minna en áætlanir gerðu ráð fyrir. Sala á fríhöfninni er á döfinni og Sveinbjörn telur einnig skynsamlegt að fá erlendra fjárfesta inn sem eiganda að Keflavíkurflugvelli líkt og gert hefur verið í nágrannalöndum. Sveinbjörn fer yfir breytingar sem hafa orðið varðandi möguleika ISAVIA til að kyrrsetja flugvélar ef til skuldar kemur hjá flugrekanda, eftir að hæstiréttur sýknaði ALC flugvélaleigusalann af kröfu ISAVIA s.l. vor. Þá er rætt um ANS dótturfélag ISAVIA sem rekur íslenska flugstjórnarsvæðið og vandræðagang í skipulagsmálum á Reykjavíkurflugvelli, trén frægu í Öskjuhlíð og ýmislegt varðandi rekstur annarra innanlandsflugvalla landsins.
Rætt er við Kristján Má Unnarsson frétta- og dagskrárgerðarmann um nýja sjónvarpsþáttaröð sem hann hefur umsjón með og er að hefja göngu sína á Stöð 2 í september. Þættirnir heita Flugþjóðin og þar fá áhorfendur innsýn í þessa stóru atvinnugrein okkar Íslendinga í dag bæði hérlendis og ekki síður útrás íslenska fluggeirans á erlendri grundu. Kristján er sjálfur lærður einkaflugmaður og segir hér frá áhugaverðu fólki og fyrirtækjum í fluginu sem hann hefur tekið tali við gerð þessara þátta.
Hannes Ingi Guðmundsson þjálfunarflugstjóri RiyadhAir segir hér frá atriðum á merkilegum ferli sínum og þáttöku í því stóra verkefni við að koma rekstri RiyadhAir af stað á næstu mánuðum. Áætlanir félagsins eru að stækka mjög hratt á allra næstu árum og hefur félagið nú þegar yfir 70 B787 Dreamliner flugvélar í pöntun frá Boeing verksmiðjunum. Hannes Ingi gefur hlustendum innsýn í líf flugmannsins í miðausturlöndum þar sem hann á mörg ár að baki í vinnu fyrir Emirates í Dubai, en Dalvíkingurinn tók sín fyrstu skref í fluginu hér á Íslandi, en hélt síðan af landi brott til að vinna fyrir RyanAir og svo Emirates.
Rætt er við Magnús Má Þórðarson framkvæmdastjóra hjá Tern systems sem sérhæfir sig í að hanna og framleiða hugbúnað fyrir stjórnun flugumferðar. Fyrirtækið hyggst nýta tækifæri í tæknibyltingu með gervigreind og hlaut nýverið 95 milljóna króna styrk úr rannsóknar- og nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins SESAR til að þróa gervigreindarlausn sem ætlað er að auka flugöryggi. Magnús Már segir hér frá þessu og ýmsum öðrum áhugaverðum verkefnum fyrirtækisins til þessa. Tern er með starfsemi í mörgum löndum og starfsmennirnir eru nærri eitt hundrað. Fyrirtækið er í dag í eigu ISAVIA ANS en þreifingar eru uppi um að fá mögulega inn nýtt eignarhald í félagið.
Rætt er við Sölva Þórðarson skólastjóra og einn af eigendum Flugskóla Íslands sem auglýsir nú atvinnuflugnám í samstarfi við Sevenair flugskólann í Portúgal. Sölvi hefur ásamt fleirum rekið skóla undir nafninu Icelandic Aviation Training í nokkur ár þar sem fókusinn hefur aðallega verið að þjónusta flugrekendur bæði hér heima og erlendis með tegundaráritanir og síþjálfun flugáhafna. Nú hefur skólinn tekið upp nafnið Flugskóli Íslands og býður upp á nám til atvinnuflugmanns frá a til ö. Sölvi segir í þættinum ítarlega frá þessu nýja námsframboði og ræðir um stöðu flugnámsins eftir margvíslegar breytingar á þeim markaði á síðustu árum.
Rætt er við Guðmund Tómas Sigurðsson ábyrgðarmann þjálfunar flugáhafna hjá Icelandair um innleiðingu á Airbus flota hjá félaginu. Fyrsta Airbus vélin er áætluð í nóvember og þjálfa þarf 70-80 flugmenn strax næsta vetur fyrir þær 4 flugvélar sem áætlað er að taka í rekstur fyrir sumarið 2025. Nú hefur verið skrifað undir kaup á nýjum Airbus flughermi sem tekinn verður í notkun á næsta ári, en það tæki mun skipta sköpum í allri þjálfun flugáhafna á eftir því sem Airbus vélum félagsins fjölgar á næstu árum. Guðmundur ræðir einnig um nýja nálgun félagsins í þjálfunarmálum og þá viðleitni til að þjálfa flugmenn fyrir nýjum áskorunum sem geta komið upp í breyttum heimi.
Hér fer þriðji hluti í samantekt Flugvarpsins um DC-3 flugvélar á Íslandi í tilefni af 80 ára afmæli fyrstu DC-3 flugvélar Íslendinga. Rifjuð eru upp þrjú mannskæð flugslys sem urðu á þessari tegund flugvélar hérlendis. Tvö þeirra þar sem sérstaklega djúpt skarð var höggvið í íbúafjölda landsins á sínum tíma því þar var um að ræða tvö af mannskæðustu flugslysum sem orðið hafa hér á landi. Hið fyrra þegar 25 manns fórust í Héðinsfirði og hið seinna þegar 20 manns fórust með Þristinum í Faxaflóa.
Rætt er við Einar Sveinbjörnsson veðurfræðing um ókyrrð í flugi eins og heiðkviku (clear air turbulence), sem nýleg dæmi sýna að geta valdið stórslysum um borð í flugvélum. Hvar og hvernig myndast heiðkvikan og hvað veldur því hversu mikil hún verður? Eru varasamar aðstæður og öfgar í veðrinu að aukast með breyttu veðurfari og hitastigi? Einar reynir að svara þessum spurningum og fleirum, en hann hefur áratuga reynslu sem veðurfræðingur og sinnir veðurráðgjöf fyrir bæði stofnanir og fyrirtæki. Hann rýnir t.a.m. gögn til að hjálpa flugfélögum við að meta hvort breyta þurfi flugáætlun þegar óveður gengur yfir landið eða eldgos verða.
Rætt er við Guðrúnu Gunnarsdóttur flugfreyju til 40 ára um ferilinn og starfið. Guðrún ætlaði eins og margir aðrir rétt að prófa flugfreyjustarfið en ílentist í rúm 40 ár. Hún rifjar hér upp ýmis áhugaverð atvik á löngum ferli, allt frá stórkostlegum ferðum til Suðurskautslandsins og til óþægilegra og erfiðra flugferða í vondum veðrum. Guðrún myndi hiklaust velja sama framtíðarstarfið aftur enda hafi það þrátt fyrir mikið álag á köflum, gefið ríkulega til baka. Flugfreyjur deyi aldrei ráðalausar, þurfi oft að bregða sér í alls konar hlutverk og hún segir að það gæti væri áhugavert að taka saman öll hollráð flugfreyjanna í gegnum tíðina. Sjálf segist hún útskrifuð úr háskóla háloftanna eftir farsælan feril og hlakkar til næsta tímabils.
Bogi Agnarsson flugstjóri segir hér frá atriðum á stórmerkum ferli sínum fyrst hjá Landhelgisgæslu Íslands og síðar hjá Air Atlanta á B747 jumbó. Bogi rifjar hér m.a. upp fræknar björgunarferðir við erfiðar aðstæður á gömlu Dauphin þyrlu gæslunnar TF-SIF og hvernig flugreksturinn tók gríðarlegum stakkaskiptum á níunda áratugnum með tilkomu nýrra tækja, betri verkferla og aukinni þjálfun. Bogi söðlaði um á miðjum aldri, hætti hjá Landhelgisgæslunni og fór að fljúga Boeing þotum hjá Air Atlanta þar sem hann fékk útrás fyrir flakk heimshorna á milli og lauk sínum atvinnuflugmannsferli á B747. Hann átti einnig stóran þátt í að sameina flugmenn Atlanta undir hatti Félags íslenskra atvinnuflugmanna og varð um leið síðasti formaður Frjálsa flugmannafélagsins.
Rætt er við Friðrik Adolfsson framkvæmdastjóra og einn af eigendum Norlandair á Akureyri, en hann lætur senn af störfum eftir 50 ár í fluginu. Hann skilar öflugu búi því Norlandair hefur vaxið stöðugt og rekstur félagsins gengur vel. Meginstoðirnar í rekstrinum eru Grænlandsflug, áætlunarflug á smærri staði innanlands og nú síðast sjúkraflugið, sem félagið tók yfir um síðustu áramót. Friðrik segist sjá fyrir sér enn meiri eftirspurn eftir flugi til Grænlands og að samhliða geti félagið haldið áfram að vaxa, en til þess vanti tilfinnanlega meira skýlispláss á Akureyrarflugvelli.
Annar hluti í samantekt Flugvarpsins um DC-3 í tilefni af 80 ára afmæli Þristsins. Rætt er við Svein Runólfsson fyrrverandi Landgræðslustjóra um Landgræðsluflugið á DC-3 sem stóð yfir í rúm 30 ár og breytti ásýnd landsins mjög víða til hins betra, enda einn öflugasti áburðardreifari sem notaður hefur verið. Sveinn hefur yfirgripsmikla þekkingu á starfsemi Landgræðslunnar og þekkir einnig vel einstaka sögu Gunnarsholts í gegnum áratugina þar sem var oft á tíðum iðandi mannlíf þegar Landgræðsluflugið var sem mest.
Rætt er við Jón B. Stefánsson stjórnarformann Keilis og Flugakademíu Íslands um gjaldþrot Flugakademíunnar. Jón fer yfir stöðuna varðandi uppgjör fyrrverandi nemenda við skólann og áætlanir um uppgjör þeirra skulda en sumir eiga enn inni peninga fyrir óflogna flugtíma. Hann segir það vinnulag að láta nemendur greiða fyrirfram fyrir flugnámið hafi reynst félaginu um megn þegar aðsóknin í skólann minnkaði verulega. Þá hafi kaup Flugakademíu Keilis á Flugskóla Íslands fyrir um fjórum árum verið allt of kostnaðarsöm. Jón hefur áratuga reynslu úr menntakerfinu og þekkir vel til flugnáms. Hann var m.a. skólameistari Tækniskólans um árabil þegar atvinnuflugnám og flugvirkjun voru sett undir hatt skólans og telur að flugnám ætti að geta fallið vel að öðru sambærilegu atvinnutengdu námi í landinu.
Samantekt um hina sögufrægu flugvél DC-3 á Íslandi í tilefni af 80 ára afmæli fyrstu vélar af þeirri gerð, sem nú er varðveitt á Flugsafni Íslands. Í þessum þætti er farið yfir atriði úr sögu Þristsins á Íslandi og birt eru viðtalsbrot úr kvikmyndinni Íslenskir atvinnuflugmenn við flugstjórana Snorra Snorrason, Henning Bjarnason og Geir Gíslason. Einnig er rætt við Sverri Þórólfsson flugstjóra um hans feril og einkum á DC-3 sem hann flaug mikið á sjöunda áratugnum og síðar í landgræðslufluginu.
Rætt er við Steinunni Maríu Sveinsdóttur safnstjóra Flugsafns Íslands. Flugsafnið hefur vaxið og dafnað á síðustu árum og stór verkefni blasa við á næstunni, en safnið fagnar 25 ára afmæli í vor. Steinunn segir hér frá fjölmörgum áhugaverðum verkefnum til þessa og hvernig ætlunin er að þróa starf safnsins enn frekar í þá átt að ekki eingöngu að varðveita muni og sögu heldur einnig að opna heim flugsins fyrir þeim sem ekki þekkja. Hún segir mikinn velvilja gangavart Flugsafninu og þar fer Örninn hollvinafélagið einna fremst í flokki. Viðtalið var tekið upp á Flugsafni Íslands um borð í TF-SYN gömlu Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar.
Reynir Freyr Pétursson þyrluflugstjóri og flugrekstrarstjóri HeliAir Iceland ræðir um stöðu þyrluflugs á Íslandi og tækifærin framundan. HeliAir Iceland er nýtt fyrirtæki sem sinnir margs konar spennandi verkefnum í að flytja bæði fólk og vörur fyrir innlenda og ekki síst erlenda kúnna. Reynir Freyr hefur áratuga reynslu af þyrluflugi hérlendis og fer m.a. yfir erfiða samkeppni á þessum markaði sem oft er ósanngjörn að hans mati. Rætt er um nám til þyrluflugs, atvinnuhorfur og fordóma sumra í garð þessa ferðamáta. Reynir segir einnig frá ýmsum skemmtilegum verkefnum sem á daga hans hefur drifið í að fljúga þyrlum vítt og breitt um landið.
loading