Skuggavaldið

Í Skuggavaldinu ræða prófessorarnir Eiríkur Bergmann og Hulda Þórisdóttir saman um hvaðeina er viðkemur samsæriskenningum. Samfara örum samfélagsbreytingum hefur samsæriskenningum hratt vaxið fiskur um hrygg, svo sem í kjölfar Brexit, stjórnartíðar Donalds Trump og COVID-faraldursins. Samsæriskenningar eru þó ekki nýjar af nálinni, heldur hafa þær fylgt manninum frá öndverðu og nærast á þörf til að greina hulið skipulag í óreiðu. Framleitt af Tal.

#23 - Julian Assange og andsvar stórveldanna – WikiLeaks, annar þáttur

Var Julian Assange á mála hjá Rússum eða jafnvel CIA? Sameinuðust leyniþjónustur heims kannski öllu heldur í því að þagga niður í honum? Hulda og Eiríkur rekja hvernig hetjan sem afhjúpaði stríðsglæpi í Írak breyttist í lýjandi gest sem enginn vildi. Þau fara yfir hið meinta kynferðisbrotamál í Svíþjóð, árin í sendiráði Ekvador og allt til reyfarakenndrar atburðarrásar þegar Assange fékk loks frelsi í júní 2024. Í þættinum er fjallað um það hvernig stórveldi beita sér frá ófrægingu til fangelsunar til að ná böndum á þeim sem ógna þeim. Skuggvaldið er í samstarfi við Plöntuna Bístro og kaffihús, Atlantsolíu og Vesturröst.  Skuggavaldið verður á Vísindavöku RANNÍS í Laugardalshöll þ. 26. september 2025.  Sendið okkur línu á skuggavaldid@gmail.com

09-01
56:35

#22 - Reykjavík miðstöð uppljóstrunar aldarinnar – WikiLeaks, fyrsti þáttur

Hristi hópur hakkara við Grettisgötu stoðir mesta stórveldis heims svo mjög að það óttaðist um eigið vald? Í fyrsta þætti af fjögurra hluta syrpu Skuggavaldsins um WikiLeaks og Julian Assange kafa Eiríkur og Hulda ofan í söguna af því þegar Reykjavík, í miðri efnahagskreppu, varð óvænt miðstöð stærstu uppljóstrunar 21. aldar. Frá Kaupþingslekannum til Collateral Murder – þetta er sagan af því þegar litla Ísland breyttist í aðgerðamiðstöð sem skók alþjóðleg valdakerfi í grunninn.   Skuggvaldið er í samstarfi við Vesturröst og Atlantsolíu Skuggvaldið verður á Vísindavöku RANNÍS í Laugardalshöll 27. septmeber Sendið okkur ábendingar og tillögur í skuggavaldid@gmail.com

08-18
45:09

#21 - Verstu fyrirtæki í heimi

Eru kenningar um samsæri tóbaksframleiðenda tóm tjara? Eða eru þetta kannski verstu fyrirtæki í heimi? Eiríkur og Hulda fjalla nú í fyrsta sinn um raunverulegt samsæri sem hefur verið afhjúpað og staðfest fyrir dómi. Í áratugi beittu stærstu tóbaksfyrirtæki heims kerfisbundnum blekkingum; þau markaðssettu tóbak til barna, hönnuðu ávanabindandi sígarettur og keyptu sér vísindamenn. Þetta er sagan af því hvernig reykurinn huldi sannleikann og hvernig sömu aðferðum er áfram beitt í nútímanum til að villa um fyrir fólki. Skuggvaldið er í samstarfi við Atlantsolíu og Vesturröst. Skuggavaldið verður á Vísindavöku RANNÍS í Laugardalshöll þ. 26. september 2025. Sendið okkur línu á skuggavaldid@gmail.com

08-04
54:16

#20 - Wind of change - seinni þáttur

Voru listamenn gerðir að leynivopni í kalda stríðinu? Eiríkur og Hulda kryfja sögulegar staðreyndir um það hvernig vestrænar leyniþjónustur beittu bæði bókmenntum og tónlist sem vopni í kalda stríðinu. Þau rekja hvernig vestrænar leyniþjónustur stóðu að útgáfu bannaðra skáldsagna, fjármögunuði tímarit í leyni og sendu djassgoðsagnir austur fyrir járntjaldið - og spyrja svo: Gæti Wind of Change með vesturþýsku hljómsveitinni Scorpions hafa verið hluti af slíkri herferð? Hvenær verður lag meira en lag – og hvenær fer það að hreyfa við heilu heimsveldi?

07-21
41:39

#19 - Wind of change - fyrri Þáttur

Samdi CIA lag Scorpions, Wind of Change, til að fella Sovétríkin? Hulda og Eiríkur rekja ótrúlega sögu samsæriskenningarinnar um að vestrænar leyniþjónustur hafi samið lagið Wind of Change með þýsku stálsveitinni Scorpions sem vopn í hugmyndabaráttu kalda stríðsins. Þau leiða hlustendur frá risatónleikum í Moskvu 1989 og töfrastund við Moskvuána, inn í heim njósna, rokkstjarna og hvísls manna á milli í leyniþjónustunni. Nýjasti þátturinn af Skuggavaldinu er aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum. Sendu okkur línu á skuggavaldid@gmail.com. Skuggavaldið er í samstarfi við Vesturröst og Atlantsolíu.

07-07
54:52

#18 - Efnaslóðar; að flugvélar drefi eiturefnum – seinni þáttur

Í nýlegum þætti hlaðvarpsins Skuggavaldið köfuðu prófessorarnir Hulda Þórisdóttir og Eiríkur Bergmann ofan í samsæriskenninguna um að stjórnvöld séu í leyni að úða eitruðum efnum yfir almenning úr flugvélum. Þó að þessi tiltekna kenning eigi sér enga vísindalega stoð, þá sprettur hún ekki alveg upp úr engu. Grunsemdirnar eiga sér nefnilega raunverulega og ansi uggvekjandi forsögu Ábendingar og athugasemdir sendist í skuggavaldid@gmail.com

06-23
40:07

#17 - Efnaslóðar; að flugvélar dreifi eiturefnum – fyrri þáttur

Eru hvítu rákirnar sem fylgja þotum á himni í raun eiturefni, vísvitandi úðað yfir fólkið til að hafa áhrif á hegðun þess? Í þessum fyrri af tveimur þáttum Skuggavaldsins um svonefnda efnaslóða — eða chemtrails — kafa Hulda og Eiríkur ofan í uppruna samsæriskenningarinnar og skoða hvernig raunveruleg vísindaverkefni á borð við HAARP og tilraunir til veðurstýringar hafa lagt frjóan jarðveg fyrir vantraust og tortryggni sem halda kenningunni á lífi. Nýjasti þátturinn af Skuggavaldinu er kominn í loftið — bókstaflega — og aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum. Áttu dularfullan leyndardóm sem þú vilt að við kryfjum? Sendu okkur línu á skuggavaldid@gmail.com. Skuggavaldið er í samstarfi við Vesturröst og Atlantsolíu.

06-09
39:18

#16 - Andlát Marilyn Monroe

Myrti mafían Marilyn Monroe? Eða stóðu Kennedy-bræður kannski að andláti hennar? Hulda og Eiríkur kafa ofan í flókið net samsæriskenninga um dularfullan dauða frægustu kvikmyndastjörnu heims. Mafían, CIA, Kennedy-bræður, ástir, losti, fíkn og svik fléttast saman í víðfeman sagnavef.   Ábendingar og athugasemdir sendist í skuggavaldid@gmail.com

05-26
53:43

#15 - Illuminati goðsögnin – seinni þáttur

Var franska byltingin í raun sprottin af þýskri leynireglu? Eiga Rockefellerar, Rothschildar og rapparinn Jay-Z það sameiginlegt að vilja koma á fót nýrri heimsskipan? Og hvernig varð tákn sem eitt sinn stóð fyrir visku og skynsemi að tákni alræðislegs skuggavalds í popptónlist og pólitík? Í síðari þætti af tveimur um goðsögnina um Illuminati rýna Eiríkur og Hulda í þrálátar samsæriskenningar tengdar bræðrareglunni úr Bæjaralandi – frá hógværum og hugmyndafræðilegum uppruna hennar árið 1776 til grunsemda um hnattrænt valdakerfi sem á að stjórna öllu frá heimsstyrjöldum til sviðsetningar í tónlistarmyndböndum.

05-12
47:22

#14 - Illuminati leynireglan – fyrri þáttur

Stýrir Illuminati bræðrareglan frá Bæjaralandi heimsviðburðum – allt frá frönsku byltingunni til Kardashian-fjölskyldunnar? Í þessum fyrri af tveimur þáttum um Illuminati kafa Eiríkur og Hulda í sögulegan uppruna leynifélagsins sem síðar varð að alþjóðlegri goðsögn um ósýnilegt vald. Þau rekja hvernig smáhópur hugsuða í Bæjaralandi árið 1776 breyttist í myrka ímynd alheimsstjórnar og greina gagnrýnið hvernig tákn, tónlistarmyndbönd og valdakenningar hafa verið samtvinnuð æsilegum sögum um leynd og yfirráð. Af hverju lifir goðsögnin um Illuminati áfram – og hvað segir það um samtímann? 

04-28
42:12

#13 - Kennedy bölvunin - þriðji þáttur

Létu valdaöfl í Repúblíkanaflokknum myrða Robert F. Kennedy Sr til að koma í veg fyrir að Kennedy-fjölskyldan snéri aftur á forsetastól? Í lokaþætti þríleiks Skuggavaldsins um Kennedy-bölvunina skoða Hulda og Eiríkur morðið á Robert F. Kennedy og flétta saman heillandi fjölskyldusögu, samsæriskenningar og bandaríska ofbeldissögu – allt fram til dagsins í dag þar sem sonur hans, RFK Jr., einn áhrifamesti talsmaður samsæriskenninga í heimi, situr sem heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna. Þátturinn tengir harmleik, stjórnmál og sálfræði í átakanlega og stundum óvænta frásögn.

04-14
45:36

#12 - Kennedy bölvunin - annar þáttur

Leyndu bandarísk stjórnvöld upplýsingum um raunverulegan morðingja John F. Kennedy? Í öðrum þætti þríleiks um Kennedy-bölvunina kafa Eiríkur og Hulda ofan í sígildar samsæriskenningar um að valdastofnanir Bandaríkjanna – þar á meðal leyniþjónustan – hafi annað hvort komið að morðinu á John F. Kennedy eða vitað meira en þær létu uppi. Fjallað er um eftirmála morðsins, skoðað hvaða mann Lee Harvey Oswald hafði að geyma og helstu samsæriskenningar vegnar og metnar með gagnrýnum augum.

03-31
51:16

#11 - Kennedy bölvunin - fyrsti þáttur

Myrti mafían John F. Kennedy? Eða CIA ? Stóð Castro á Kúbu kannski á bak við morðið? Hverjir höfðu mest að græða á því að þagga niður í forsetanum sem ætlaði að umbylta bandarísku valdi? Í þessum fyrsta af þremur þáttum um Kennedy-fjölskylduna er rýnt í morðið á JFK og farið ofan í söguna sem gerði þau að „konungsfjölskyldu“ Bandaríkjanna – veldi sem virtist dæmt til glæsileika en líka óhjákvæmilegra hörmunga.

03-17
44:38

#10 - Trump samsæriskenningar 2.0

Snúinn aftur á forsetastól í BNA hefur Trump lyft samsæriskenningum upp í hæstu hæðir valdsins. Í þættinum fjalla Eiríkur og Hulda um hvernig Trump hefur breytt samsærisórum í opinbera stjórnarstefnu – með ráðherrum sem trúa á kosningasvindl, bóluefnasvindl og hina svokölluðu „Great Replacement“-kenningu, sem segir að innflytjendur séu markvisst notaðir til að veikja „hina raunverulegu Bandaríkjamenn“. Þátturinn fjallar einnig um hvernig samsæriskenningar spruttu upp eins og illgresi í kjölfar banatilræðisins gegn Trump og hvernig hann hefur hert tök sín á valdinu með því að náða öfgahópa og refsa pólitískum óvinum. Að lokum er spurt: Hefur popúlisminn sigrað? Er þetta nýtt stórveldi – byggt á samsæriskenningum og hefndarþorsta?

03-03
37:15

#9 - Trump samsæriskenningar 1.0

Gróf djúpríkið í Bandaríkjunum undan árangri Donalds Trumps á fyrri forsetatíð hans? Eitt helsta sérkenni Trumps sem stjórnmálamanns er hvernig hann hefur gert samsæriskenningar að lykilvopni í baráttu sinni – ekki bara til að grafa undan andstæðingum sínum, heldur einnig til að styrkja eigin stöðu. Í þessum þætti kryfja Eiríkur og Hulda samsærisstjórnmál Trumps og sýna hvernig samsæriskenningar urðu ekki aðeins hluti af orðræðu hans, heldur sjálfur grunnurinn að forsetatíð hans. Var „djúpríkið“ raunverulegt ógn við forsetann – eða var það Trump sjálfur sem skapaði óvini úr engu? Þættirnir eru í boði Vesturröst og Ikea, framleiddir af Tal.

02-17
50:03

#8 - Dauði Kurt Cobain

Stóð Courtney Love, eiginkona Kurt Cobain, forsöngvara hinnar íkonísku grunge hljómsveitar, Nirvana, að baki dauða hans árið 1994 vegna öfundar og erfðamála? Eða komu yfirvöld honum kannski fyrir kattarnef til að koma í veg fyrir slæm áhrif hans á æsku landsins? Í þættinum fjalla Eiríkur og Hulda um samsæriskenningarnar tengdar andláti Kurt Cobain en þær eru eins spegilmyndir í myrkri, þar sem harmræn persónusaga Cobain blandast ógnvekjandi frásögnum af vafasömum atvikum og óræðum vísbendingum

12-09
44:32

#7 - Ný heimsskipan part 2

Stýrir leynileg valdaelíta alþjóðstofnunum á borð við ESB og SÞ á bak við tjöldin? Stóð hún kannski að baki bæði fyrri heimsstyrjöld og uppgangi nasismans til að skapa ringulreið og koma á alræði á heimsvísu? Í seinni þætti af tveimur um nýja heimsskipan ræða Hulda og Eiríkur þessa margbrotnu samsæriskenningu.

11-25
43:57

#6 - Ný heimsskipan part 1

Stýrir leynileg valdaelíta heiminum? Mun hún hneppa veröldina í ánauð? Í þættinum leiða Hulda og Eiríkur hlustendur í gegnum sögu og einkenni hinnar frægu samsæriskenningar um Nýja heimsskipan (e. New World Order). Samkvæmt kenningunni hefur leynileg valdaelíta, oft nefnd „heimselítan,“ það að markmiði að koma á alræðisstjórn og hneppa heimsbyggðina undir alræði fárra útvalinna.

11-11
47:57

#5 - Qanon samsæriskenningin part 2

Stal djúpríkið í Bandaríkjunum forsetakjörinu úr réttkjörnum höndum Donalds Trumps árið 2020? Lágu djöfladýrkandi barnaníðingar í elítu Demókrataflokksins þar undir steini? Í síðari þætti um QAnon rekja þau Eiríkur og Hulda atburðina þann 6. janúar 2021 þegar stuðningsfólk Donalds Trumps, mörg hver keyrð áfram af trú sinni á QAnon samsæriskenninguna, ruddust inní þinghúsið í vanburðugri valdaránstilraun. Árásin á þinghúsið er skýrt dæmi um það hvernig samræmiskenningar geta leitt til upplausnar og átaka í samfélögum samtímans.

10-28
53:15

#4 - Qanon samsæriskenningin part 1

Stjórna djöfladýrkandi barnaníðingar Bandaríkjunum undir niðri? Er Donald Trump eina vörnin gegn illvirkjunum? QAnon-samsæriskenningin sem heldur slíku fram hófst sem pískur í myrkustu kimum Internetsins en þróaðist á ótrúlega skömmum tíma í hreyfingu sem átti þátt í einum afdrifaríkasta atburði í sögu Bandaríkjanna – árásinni á þinghúsið þann 6. janúar 2021. Í nýjasta þætti hlaðvarpsins Skuggavaldið kryfja prófessorarnir Hulda Þórisdóttir og Eiríkur Bergmann forsöguna að þessari ótrúlegu hreyfingu og skoða hvernig hún náði að breiðast út frá undirheimum netmiðlanna til raunverulegra atburða.

10-14
46:14

Recommend Channels