Fyrirboðum um áform hulduaflanna er plantað í dægurmenningu áður en þau raungerast (e. Predictive programming)
Description
Í þessum nýjasta þætti af Álhattinum ræða Guðjón Heiðar, Haukur Ísbjörn og Ómar Þór áhugavert fyrirbæri sem kallað hefur verið forvirk forritun(e.predictive programming), þar sem dægurmenning virðist spegla eða jafnvel undirbúa almenning fyrir atburði áður en þeir raungerast. Sagan er þannig ekki einungis skrásett og skjalfest af sagnfræðingum heldur einnig skrifuð og skipulögð af handritshöfundum, leikstjórum og fréttastofum sem móta sameiginlega sýn almennings á heiminn í gegnum undirmeðvitundina.
Þeir félagar fara yfir dæmi sem hafa vakið upp stórar spurningar og mikla undran. Þá kannski sér í lagi meðal Álhatta. Í The Lone Gunman birtist td árás á World Trade Center mánuðum fyrir 11. September, þar sem markmiðum yfirvalda um nauðsyn þess að að finna nýja ógn eða óvin eftir endalok kaldastríðsins er lýst í smáatriðum. Í BBC Panorama: London Under Attack var dregin upp sviðsmynd samhæfðra sprenginga í neðanjarðarlestum Lundúna, sem endurspeglaði atburðina 7. júlí 2005 af ótrúlegri nákvæmni. Áður en sprengingarnar áttu sér stað. Í kvikmyndinni Contagion birtist svo farsótt sem virðist óhugnanlega keimlík COVID-19.
Eru þetta aðeins ótrúlega óheppilegar tilviljanir, einhverskonar sammannlegt innra innsæi eða markviss sáðsetning hugmyndafræðilegra fræja í hugum fólks? Er kannski hægt að venja heilar þjóðir við ógnir og eftirlit með því að sýna ógnirnar nógu oft í skáldskap? Munum við frekar samþykkja aukið eftirlit og skert frelsi og réttindi ef við höfum séð það í dægurmenningu okkar? Normaliserar dægurmenningin kúgun og eftirlit svo yfirvöld þurfi ekki að eyða orku í það? Hversu stórt hlutverk leikur dægurmenningin í að móta afstöðu okkar og skoðanir?
Guðjón Heiðar, Haukur Ísbjörn og Ómar Þór kanna mörkin milli lista og valds og velta því fyrir sér hver sé munurinn milli þess að segja sögur og að stjórna frásögninni. Þeir skoða hvort dægurmenningin sé aðeins spegill samtímans eða verkfæri til að móta framtíðina. Erum við að lesa of mikið í tilviljanir eða er um kerfisbundið mynstur að ræða, sem mögulega er ætlað til þess að forrita okkur? Kannski er forvirk forritun ekki spádómur, heldur hluti af leikriti þar sem við öll leikum hlutverk án þess að vita af því eða hafa veitt samþykki fyrir því.
Þetta og svo margt margt fleira í þessum nýjast þætti af Álhattinum þar sem þeir félagar Guðjón Heiðar, Haukur Ísbjörn og Ómar Þór velta því fyrir sér hvort að fyrirboðum um áform hulduaflanna sé plantað í dægurmenningu okkar áður en atburðir raungerast(e.predictive programming).
HLEKKIR Á ÍTAREFNI:
- https://www.youtube.com/watch?v=5P77bUdE4p4&list=RD5P77bUdE4p4&start_radio=1
- https://youtu.be/Avj7Wbb-7FE?si=PvCka2atS1recQy4
- https://youtu.be/zZOn6rrpU-Q?si=gPrVRDkUS9QqiM-6
- https://youtu.be/x7uIjg9dtoI?si=JRJ4EYAIHUqjIgZ4
- https://youtu.be/x7uIjg9dtoI?si=JRJ4EYAIHUqjIgZ4
- https://www.youtube.com/watch?v=NMzfCYvd3JA
- https://www.youtube.com/watch?v=CmqqiVlT06M
- https://youtu.be/rIZ205ccX8M?si=AkCLsCBnHTJxqJeA
- https://youtu.be/oGFVySHbeqA?si=F35GdJKne3LkgRMc
UM ÁLHATTINN
Í þessu einstaka hlaðvarpi munu vinirnir og spekúlantarnir Ómar Þór Ómarsson, Haukur Ísbjörn Jóhannsson og Guðjón Heiðar Valgarðsson taka fyrir og fara yfir samsæriskenningar af ýmsum toga og ræða þær fram og til baka.
Í hverjum þætti verður ein fullyrðing rædd og munu þeir gefa einkunn á bilinu 1-10 byggt á því hversu sammála þeir eru fullyrðingunni í upphafi ferlisins. Síðan þegar þættinum er lokið gefa þeir aðra einkunn og þá mun koma í ljós hversu mikið afstaða þeirra hefur breyst.