Dagmál - Kosningar 2022

Laugardaginn 14. maí fara fram sveitarstjórnakosningar um land allt í 69 sveitarfélögum. Í Dagmálum Morgunblaðsins er fjallað sérstaklega um aðdraganda kosninganna, skipun framboðslista og stöðu í einstökum sveitarfélögum. Umsjón með kosningaumfjöllun Dagmála hafa blaðamennirnir Andrés Magnússon, Stefán Einar Stefánsson og Karítas Ríkharðsdóttir, sem fara um landið og taka stjórnmálamenn og álitsgjafa tali fyrir hlaðvarpið, auk þess sem góðir gestir koma í streymisþætti Dagmála.

#28 Meiri­hluta­mynd­an­ir í brenni­depli

Rykið er að setj­ast eft­ir sveit­ar­stjórna­kosn­ing­arn­ar um helg­ina, en víða er eft­ir­leik­ur­inn við meiri­hluta­mynd­un eft­ir. Þar bein­ast augu manna sér­stak­lega að borg­inni. Blaðamenn­irn­ir Gísli Freyr Val­dórs­son og Andrés Magnús­son fara yfir flókna stöðu og spá í spil­in.

05-19
01:10:19

#27 Niðurtalningin er hafin

Nú eru innan við tveir sólarhringar í að kjörstaðir opni og fólk fær tækifæri til að velja fólk í sveitarstjórnir um land allt. Dagmál Morgunblaðsins hafa gert víðreist um landið og tekið púlsinn á pólitíkusum og kjósendum, allt frá Patreksfirði til Eskifjarðar og frá Húsavík til Vestmannaeyja. Andrés Magnússon, Karítas Ríkharðsdóttir og Stefán Einar Stefánsson, gera upp ferðalagið og ræða um það sem hæst bar á ferð þeirra um landið. Einnig ræða þau horfurnar í þeim sveitarfélögum þar sem spennan er hvað mest fyrir úrslitum laugardagsins. Hver verður næsti borgarstjóri, er Sjálfstæðisflokkurinn líklegur til að halda meirihluta í Hafnarfirði og hver er staða Írisar Róbertsdóttur í hjaðningavígum í Eyjum. Svörin fást í þessum þætti.

05-12
43:32

#26 Ótal tækifæri en atvinnustigið hátt

Ómar Garðarsson hefur lengi haft puttann á púlsinum í Eyjum. Hann segir forvitnilegt að fylgjast með pólitíkinni og að harkan sé mikil og persónuleg á þeim vettvangi. Honum kemur á óvart hversu mikil áhrif orrahríðin í tengslum við sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka virðist hafa. Hann segir mörg tækifæri blasa við atvinnulífinu í Eyjum, sem í sögulegu tilliti hefur byggt að langstærstum hluta á sjávarútvegi. Ferðaþjónustan eigi mikið inni, ekki síst með bættum samgöngum og þá sé fiskeldi einnig að skjóta rótum á svæðinu.

05-05
29:55

#25 Grunnt á því góða í Eyjum

Enn gætir mikillar spennu í pólitíkinni í Eyjum vegna þeirrar ákvörðunar Írisar Róbertsdóttur, oddvita H-listans að kljúfa sig út úr Sjálfstæðisflokknum árið 2018. Eyþór Harðarson, oddviti Sjálfstæðismanna segir að flokkurinn hafi jafnað sig fljótt á klofningnum en annað virðist koma í ljós í harðvítugum orðaskiptum þeirra í milli í Dagmálum. Flest bendir til allsherjaruppgjörs í pólitíkinni í Eyjum þann 14. maí. Sjálfstæðismenn efndu til prófkjörs fyrr á árinu og var þátttakan gríðarlega mikil. Af orðum Írisar og Njáls Ragnarssonar, oddvita E-listans að dæma þarf Sjálfstæðisflokkurinn að endurheimta hreinan meirihluta til þess að ná völdum í hinu gamla vígi sínu.

05-05
57:17

#24 Bær sem er að breytast í borg

Bárður Guðmundarson hefur frá barnsaldri fylgst með uppbyggingunni á Selfossi og lengi vel átti hann og rak helstu byggingavöruverslunina í bænum. Hann segir samfélagið hafa tekið stakkaskiptum. Á fyrri árum þekkti hann hvern einasta mann á svæðinu en nú taki hann fólk sérstaklega tali á götum bæjarins ef hann þekkir það - enda þekki hann mikinn minnihluta íbúanna. Meðal þeirra sem lagt hafa hvað þyngstu lóðin á vogarskálarnar í uppbyggingunni er Leó Árnason sem farið hefur fyrir uppbyggingu nýs miðbæjar á Selfossi. Hann hefur óbilandi trú á sveitarfélaginu og telur að miklar breytingar á atvinnuháttum séu í farvatninu. Fólk muni í síauknum mæli kjósa að búa í bæjarfélögum eins og Árborg en sækja vinnu til höfuðborgarinnar.

04-28
34:24

#23 Forða þarf greiðslufalli sveitarfélagsins

Árborg hefur verið í miklum vexti síðustu ár en flest bendir til þess að skuldir sveitarfélagsins verði orðnar um 30 milljarðar króna árið 2024. Bragi Bjarnason, nýr oddviti Sjálfstæðisflokks segir að snúa þurfi við rekstri sveitarfélagsins og breyta skipulagi til þess að það eigi fyrir skuldum á komandi árum. Sigurður Torfi Sigurðsson, oddviti VG vill leggja áherslu á jöfnuð og að dreifbýli og minni byggðakjörnum verði gert hærra undir höfði. Sigurjón Vídalín Guðmundsson, sem vermir annað sætið hjá Samfylkingu en hefur setið í meirihluta fyrir Á-lista á kjörtímabilinu segir stöðuna góða og að eðlilegt sé að það taki á í rekstrinum þegar sveitarfélagið vex hröðum skrefum.

04-28
01:12:09

#22 Veitumálin stór biti

Tómas Ellert Tómasson er oddviti Miðflokksins í sveitarstjórn Árborgar. Hann er verkfræðingur og segir griðarlegt átak framundan við uppbyggingu fráveitumála. Hann hefur enga trú á því að komi til heitavatnsskorts á komandi árum. Nóg sé af vatnsauðlindum í nágrenni Selfoss sem hægt sé að hagnýta. Finna þurfi réttar lausnir. Í svipaðan streng tekur Arnar Freyr Ólafsson, oddviti Framsóknarflokks. Hann telur stór tækifæri framundan hjá Árborg en að fara þurfi vel með fjármuni sveitarfélagsins. Álfheiður Eymarsdóttir er oddviti Á-lista sem lengst af hefur haft aðkomu að meirihlutanum á kjörtímabilinu. Hún er gagnrýnin á fjármál sveitarfélagsins og telur að fara þurfi ofan í saumana á framúrkeyrslu í framkvæmdum á síðustu árum.

04-28
01:01:01

#21 Vaxtarverkir í stað samdráttar

Atvinnulíf í Ísafjarðarbæ hefur breyst mikið á undanförnum árum og mannlífið með því. Áður fyrr var það fremur einhæft og háð duttlungum náttúrunnar, jafnvel einangrað, en þó að sjávarútvegur sé þar enn ein helsta stoðin, þá hafa fleiri bæst við. Þar munar sjálfsagt mestu um fiskeldi á Vestfjörðum, auk þess sem samgöngubætur hafa gerbreytt stöðunni. Fjölbreytnin hefur einnig aukist, þannig að fólk hefur flust á svæðið í auknum mæli, enda nóga vinnu að fá og rými til nýsköpunar. Fyrir vikið hefur fasteignaverð hækkað ört og nýbyggingar á húsnæði í fyrsta sinn í mannsaldur. Það var viðeigandi að fá þá Runólf Ágústsson, verkefnastjóra á Flateyri, og Daníel Jakobsson, fráfarandi oddvita sjálfstæðismanna í bæjarstjórn sem hefur mörg járn í eldinum önnur, til þess að ræða um gróskuna í nýsköpunarsetrinu Skúrinni. Daníel segir gefandi að hætta í bæjarstjórn þegar vandamálin felist í vaxtarverkjum og sókn frekar en samdrætti og vörn, en Runólfur segir tækifærin óþrjótandi.

04-20
36:49

#20 Ísafjörður kominn á vaxtarstig

Laxeldið við Ísafjarðardjúp hefur hleypt nýju lífi í samfélagið fyrir vestan og mikil þörf er á því að Ísafjarðarbær ljúki við nýtt deiliskipulag svo hægt sé að hraða uppbyggingu. Mikil þörf er fyrir íbúðarhúsnæði og hækkandi fasteignaverð veldur því að æ álitlegra er að láta verkin tala á íbúðamarkaði. Hefur fasteignaverð hækkað mikið í öllum byggðakjörnum á síðustu misserum. Fjögur framboð bítast um hylli íbúa sveitarfélagsins og flestir vilja sækja fram. Píratar vilja spila klóka vörn og ekki ana að neinu. Stefán Einar og Andrés Magnússon taka púlsinn á pólitíkinni í Djúpinu.

04-20
01:07:25

#19 Gríðarleg verðmæti út af svæðinu

Þótt aðeins búi um 1.100 manns í Vesturbyggð nema útflutningsverðmæti af starfsemi á svæðinu tugum milljarða á ári hverju. Gríðarlegur vöxtur í laxeldi bendir til þess að þau umsvif muni enn aukast til muna. Skjöldur Pálmason er framkvæmdastjóri og eigandi fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækisins Odda segir að ráðast þurfi í gríðarlega uppbyggingu vegakerfisins til þess að tryggja greiðar leiðir fyrir þessi verðmæti af svæðinu og út í heim. Barði Sæmundsson rekur Vélsmiðjuna Loga og hefur lengi haft puttana á púlsinum í atvinnulífinu á svæðinu. Hann er bjartsýnn á stöðuna framundan og nefnir að nú séu um 50 börn á leikskólanum á Patreksfirði en voru helmingi færri fyrir 15 árum síðan. Það er órækt dæmi um aukin umsvif á svæði sem lengi var í þröngri stöðu.

04-16
43:48

#18 Vildu forðast að yrði sjálfkjörið

Það er blússandi sigling í atvinnulífinu í Vesturbyggð og mörg stór verkefni í burðarliðnum. Sveitarstjórnin gerir allt til að halda í við þróunina og byggja upp innviði til að mæta fólksfjölgun og vilja fólks og fyrirtækja til uppbyggingar. Tveir listar bjóða fram í Vesturbyggð að þessu sinni og nokkuð átak þurfti til að koma þeim saman að sögn forystumanna á hinu pólitíska sviði. Jón Árnason hjá Nýrri sýn og Anna Vilborg Árnadóttir hjá Sjálfstæðiflokki og óháðum segja að margir hafi viljað forðast þá stöðu sem kom upp árið 2014 þar sem sjálfkjörið var í sveitarstjórnina. Mikilvægt sé að fólk fái að greiða atkvæði.

04-16
32:14

#17 Unga fólkið þyrpist í bæinn

Börnum fjölgar ört í Hólminum og er leikskólinn í bænum orðinn smekkfullur. Hrafnhildur Hallmarsdóttir leiðir H-listann í sveitarstjórn sem er með hreinan meirihluta og segir hún að áherslur á nýju kjörtímabili verði þær sömu og á því yfirstandandi, nái listinn að fylkja fólki á bak við sig. Fulltrúar Í-listans sem einnig býður fram sáu sér ekki fært að mæta til viðtals en þess í stað fengum við Hafþór Benediktsson hjá BB og synir til þess að ræða við okkur. Hann hefur komið að mörgum stórum uppbyggingarverkefnum í bænum síðustu ár. Féll það m.a. í hlut fyrirtækis hans að endurnýja skólalóðina sem hafði staðið hálfköruð allt frá árinu 1985.

04-14
29:02

#16 Tuttugu tillögur til sóknar

Atvinnulífið í Stykkishólmi er á blússandi siglingu en enn má sækja fram. Þetta segir Jakob Björgvin Jakobsson, sveitarstjóri í Stykkishólmi. Tuttugu tillögur liggja nú fyrir hvernig efla megi samfélagið og segir hann að nýting jarðhita sé meðal þess sem til skoðunar sé. Mikilvægt sé að nýta þær auðlindir sem svæðið býr yfir, bæði í hafi og á landi. Jakob Björgvin settist niður með Stefáni Einari og Andrési Magnússyni á Akranesi þar sem hann beið þess að eignast sitt fjórða barn.

04-14
29:11

#15 Akranes: Bæjarstjórinn segir stór tíðindi í vændum

Sævar Freyr Þráinsson hefur verið bæjarstjóri á Akranesi frá árinu 2017. Hann vill halda áfram störfum á þeim vettvangi og segir mikla uppbyggingu í farvatninu. Vænta megi stórra tíðinda af atvinnumálum í bænum en hvert sem litið er á Akranesi eru byggingakranar og iðnaðarmenn að störfum. Það liggur bjartsýni í loftinu á Skipaskaga.

04-09
14:02

#14 Akranes: Næstu skref að laða fleiri fyrirtæki að

Mikil uppbygging á sér stað á Akranesi og í burðarliðnum er nýtt og vistvænt iðnaðarhverfi sem pólitíkusarnir á Akranesi telja að feli í sér mörg tækifæri. Þá greinir hins vegar á um hvernig skuli staðið að því að laða fyrirtæki til bæjarins. Samfylking, Framsókn og óháðir hafa myndað meirihluta á kjörtímabilinu og það er samdóma álit þeirra að samvinnan hafi gengið afar vel. Við tökum hús á þeim Ragnari Baldvin Sæmundssyni (XB), Valgarði Lyngdal Jónssyni (XS) og Líf Lárusdóttur (XD) og förum yfir stöðuna.

04-09
38:18

#13 Borgarbyggð: Gagnrýni á aðgerðaleysi stjórnmálamanna

Ingimundur Ingimundarson og Skúli Guðmundsson eru fulltrúar ólíkra kynslóða í Borgarbyggð. Þeir eiga það þó sameiginlegt að halda uppi gagnrýni á meirihlutann í sveitarfélaginu. Þeim finnst of lítið að gert í því skyni að laða ný fyrirtæki til bæjarins. Þeir gagnrýna einnig samráðsleysi varðandi uppbyggingu nýrra íþróttamannvirkja í bænum sem til stendur að ráðast í. Þrátt fyrir gagnrýnina er ljóst að mörg tækifæri leynast á svæðinu en ólíkir hagsmunir togast á, m.a. úti í Brákarey þar sem ótrúleg togstreita hefur myndast milli slökkviliðsins og ýmissa hópa og félaga. Allt þetta er til umfjöllunar í frísklegu spjalli við þá félaga.

04-07
32:01

#12 Borgarbyggð: Óljós svör um sameiningu í skólamálum

Oddvitar framboðanna í Borgarbyggð tala undir rós þegar spurt er hvort til greina komi að sameina skólastarf í helstu þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins. Ljóst er að sitt sýnist hverjum í þeim efnum og að ákvarðanir á þessu sviði munu alltaf reynast umdeildar en spurningin er hvort kjósendur muni gefa frambjóðendum kost á því að skila auðu fram yfir kosningar. Framsókn er í minnihluta þrátt fyrir mikinn meðbyr í síðustu kosningum. Ljóst er að baráttan verður hörð og að allt getur gerst þegar talið verður upp úr kjörkössunum.

04-07
01:17:28

#11 Meirihlutinn fær stuðning úr óvæntri átt

Mikil gerjun er í pólitíkinni í Norðurþingi og leiðtogi E-listans í sveitarstjórn mun leiða lista Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum. Það væri kannski ekki í frásögur færandi nema vegna þess að E-listinn er í minnihluta nú en Sjálfstæðisflokkurinn myndar meirihluta með VG og Samfylkingu. Þess ber þó að geta að E-listinn var einskonar klofningsframboð út úr Sjálfstæðisflokknum fyrir síðustu kosningar. Sumir segja að þar sé fólkið á leiðinni aftur heim. Atvinnumálin eru í brennidepli á svæðinu og yfir þau mál fara þau Benóný Valur Jakobsson, fyrir Samfylkingu, Hjálmar Bogi Hafliðason frá Framsóknarflokki og Helena Eydís Ingólfsdóttir frá Sjálfstæðisflokki.

03-26
49:21

#10 Sameiningin stendur enn yfir

Stjórnmálin í Fjallabyggð markast mjög af því að þar eru sameinaðir tveir grónir þéttbýliskjarnar með fjörð á milli. Þrátt fyrir að Héðinsfjarðargöng hafi tengt Siglufjörð og Ólafsfjörð vel hefur sameiningin 2006 gengið misvel og er í raun enn að eiga sér stað. Bæjarfulltrúarnir Tómas Atli Einarsson frá Sjálfstæðisflokki og Jón Valgeir Baldursson frá H-lista komu í kosningahlaðvarp Dagmála til blaðamannanna Andrésar Magnússonar og Stefáns Einars Stefánssonar, sem hafa farið um Norðurland undanfarna daga. Bæjarfulltrúarnir hafa þó ekki miklar áhyggjur af þessu og telja að sameiningin muni takast að fullu eftir því sem ný kynslóð lætur til sín taka í stjórnmálum og atvinnulífi. Þeir eru báðir bjartsýnir fyrir hönd sinna heimabyggða, en telja að samgöngubætur og öryggi í raforkudreifingu sé lykillinn að frekari grósku í athafnalífi og mannlífi í Fjallabyggð.

03-25
41:52

#9 Gamla fólkið er fast

Eldra fólk í Fjallabyggð situr fast í stórum einbýlishúsum þar sem ekki hefur tekist að byggja minna og hagkvæmra húsnæði fyrir þá sem komnir eru á efri ár. Á sama tíma hafa mörg af eldri húsum Siglufjarðar verið keypt af fólki sem nýtir þau til sumardvala en er ekki með fasta búsetu á svæðinu.  Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson settust niður með Siglfirðingunum Guðrúnu Árnadóttur og Hrólfi Baldurssyni. Guðrún hefur um áratugaskeið búið á Siglufirði og gefið sig að félags- og sveitarstjórnarmálum en er alla tíð titluð fóstra í símaskránni. Hrólfur er atkvæðamikill rakari á staðnum sem rekur rakarastofu og bar í gömlu Kommahöllunni. Þau eru bæði með munninn fyrir neðan nefið.

03-25
38:19

Recommend Channels