Discover
Spursmál
Spursmál
Author: Ritstjórn Morgunblaðsins
Subscribed: 693Played: 15,058Subscribe
Share
© Ritstjórn Morgunblaðsins
Description
Spursmál er nýr og beinskeyttur umræðuþáttur á mbl.is
Þar eru stóru mál samfélagsins krufin með afdráttarlausum hætti undir stjórn Stefáns Einars Stefánssonar sem fær til sín valinkunna gesti í settið alla föstudaga kl. 14.
Fylgstu með lifandi, fjölbreyttri og kraftmikilli umræðu í Spursmálum
á mbl.is.
Þar eru stóru mál samfélagsins krufin með afdráttarlausum hætti undir stjórn Stefáns Einars Stefánssonar sem fær til sín valinkunna gesti í settið alla föstudaga kl. 14.
Fylgstu með lifandi, fjölbreyttri og kraftmikilli umræðu í Spursmálum
á mbl.is.
104 Episodes
Reverse
Er íslenski ríkisfjölmiðillinn í sams konar vanda og BBC í Bretlandi sem nú sætir harðri gagnrýni fyrir vinnubrögð og hlutdrægni í fréttaflutningi sínum?Þeir Ingvar Smári Birgisson, lögmaður og stjórnarmaður í RÚV, og Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri og alþingismaður mæta í settið til að fara yfir málið. Þeir þekkja vel til málavaxta í Bretlandi þar sem fréttamenn urðu uppvísir að því að afvegaleiða áhorfendur þegar kom að umfjöllun um Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.Þá ræða helstu fréttir vikunnar þær Bjarnheiður Hallsdóttir, fyrrverandi formaður Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu, og Vigdís Hauksdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi borgarfulltrúi.Í þeirri umræðu ber einna hæst ástand efnahagsmála í landinu en sú ákvörðun ESB að falla ekki frá hækkun verndartolla á framleiðsluvörur Elkem á Íslandi eru nýjasta dæmið af mörgum skakkaföllum sem íslenskt efnahagslíf hefur orðið fyrir síðustu vikur og mánuði.Í lok þáttarins verður rætt við Benedikt Gíslason, forstjóra Arion banka, en hann og samstarfsmenn hans hafa staðið í ströngu að undanförnu við að bregðast við nýjasta dómi Hæstaréttar í máli Neytendasamtakanna gegn bönkunum.
Hvert setur kínverski drekinn stefnuna? Er hætt við að Xi Jinping muni fyrirskipa næstöflugasta her í heimi að ráðast inn í Taívan? Þetta bar á góma á vettvangi Bókaklúbbs Spursmála.Í síðustu viku stóð klúbburinn fyrir samtali um bók Michaels Dillon, We need to talk about Xi, en hún var til umfjöllunar í októbermánuði.Þátttaka á fundinum var afar góð og voru um 80 gestir á Vinnustofu Kjarvals meðan á umræðunni stóð.Þar mættu til leiks þeir Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi utanríkisráðherra og Magnús Björnsson, einn helsti sérfræðingur Íslands í málefnum Kína.Fór umræðan vítt og breitt og beindist meðal annars að því hvaða stöðu kínverska stórveldið hyggst taka sér á heimssviðinu á komandi áratugum.Telur Magnús það afar ólíklegt að Kínverjar láti til skarar skríða. Ráði þar kalt hagsmunamat en meðal annars þær ófarir sem Rússar hafa upplifað í innrásarstríði sínu í Úkraínu.
Ríkislögreglustjóri kveinkar sér undan hallarekstri en sólundar fjármunum almennings í rándýrar allsherjarráðgjöf. Á sama tíma er Landspítalanum gert erfitt um vik að ráða fólk til starfa.Þeir mæta til leiks Árni Helgason, lögmaður, stjórnmálamaður og rithöfundur og Andrés Magnússon, blaðamaður á Morgunblaðinu og ræða helstu fréttir vikunnar. Þar bera mál ríkislögreglustjóra hátt en einnig ítarleg skýrsla um helstu embættismannakerfi veraldarsögunnar þar sem rök eru færð fyrir því að kjörnir fulltrúar eigi að hafa sem minnst með stjórn landsins að gera.Þá setjast þeir einnig niður á Spursmálavettvangi samstarfsmennirnir og mótherjarnir í þinginu, Víðir Reynisson, formaður allsherjar- og menntamálanefndar og Jón Pétur Zimsen, varaformaður hennar.Þeir komu báðir að ákvörðun í sumar sem leið sem leiddi til þess að bandaríska gjörgæsluhjúkrunarfræðingnum, Joanne Blank, var neitað um ríkisborgararétt. Hún talar íslensku og hefur haft tengsl við landið allt frá árinu 1990 þegar hún kom hingað til lands sem skiptinemi. Hún starfar á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi þar sem veikustu skjólstæðingar spítalans liggja.Í lok þáttar mætir svo Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans og ræðir einmitt mönnunarmál á þessum stærsta og einhverjum allra mikilvægasta vinnustað landsins. Hann ræðir meðal annars um mönnunarmál á spítalanum en einnig nýja Landspítalann sem tekur á sig æ skýrari mynd við Hringbraut.
Steinþór Gunnarsson var dæmdur í fangelsi, bæði í héraði og af Hæstarétti. Framkvæmd var húsleit hjá honum og hann handtekinn fyrir framan son sinn. Að lokum kom í ljós að hann hafði engin lög brotið.Steinþór rekur sögu sína í dæmalausu viðtali á vettvangi Spursmála í dag þar sem ekkert er dregið undan.Listamenn og fréttir vikunnarÞá mæta á vettvang listamennirnir Magnús Jóhann Ragnarsson, píanóleikari og tónskáld og Kjartan Logi Sigurjónsson, grínisti. Þeir fara yfir fréttir vikunnar en ræða einnig áhugaverð verkefni sem þeir hafa unnið að á síðustu misserum.Þá takast þau á um hina umdeildu lóðasamninga sem Reykjavíkurborg gerði á sínum tíma við olíufélögin stóru, þau Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni og Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri og núverandi alþingismaður.Á sínum stað er svo auðvitað yfirferð Ásthildar Hannesdóttur á stjórnmálunum eins og þau birtast okkur á samfélagsmiðlum. Þar er engin tæpitunga töluð.Hvað gerði borgin við lóðirnar?
Bók septembermánaðar í Bókaklúbbi Spursmála var Hagfræði í hnotskurn, eftir Henry Hazlitt, klassískt rit um málefni sem varðar alla. Af því tilefni settist Stefán Einar niður með Ásdísi Kristjánsdóttur hagfræðingi og bæjarstjóra í Kópavogi til að ræða um bókina og hagfræðina í víðum skilningi. Samtalið var hljóðritað þann 24. september í Fantasíusalnum á Vinnustofu Kjarvals.
Í fréttum vikunnar er rætt við fjölmiðlakonuna Sunnu Sæmundsdóttur og Björn Inga Hrafnsson, aðstoðarmann formanns Miðflokksins. Þau eru öllum hnútum kunnug í íslensku þjóðlífi en ræða einnig nýjan friðarverðlaunahafa Nóbels, friðarsamninga fyrir botni Miðjarðarhafs, brottfall verka Halldórs Kiljan Laxness úr skólakerfinu og versnandi efnahagshorfur.Hver verður kjörinn nýr varaformaður Miðflokksins á landsþingi hans á sunnudag?Þá mætir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi á vettvang Spursmála og svarar gagnrýni BSRB á hið svokallaða Kópavogsmódel sem innleitt var árið 2023 og miðar að því að bæta þjónustu við leikskólabörn í bænum. Nýverið gaf Varða, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins út rannsókn kynjafræðingsins dr. Sunnu Símonardóttur sem varpar ljósi á óánægju 20 foreldra í Kópavogi með þær breytingar sem innleiddar hafa verið á kerfinu.Að lokum sest hæstaréttarlögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson í settið og ræðir hreint ótrúlega stöðu sem iðnfyrirtækið Vélfag á Akureyri er komið í vegna þvingunaraðgerða sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra hefur gripið til gegn fyrirtækinu.
Myndin er tekin að skýrast betur eftir fall flugfélagsins Play. Í dag er vika liðin frá gjaldþroti þess. En áhrifa fallsins gætir áfram og inngrip stjórnvalda kann að hafa ófyrirséðar afleiðingar.Viðmælendurnir þekkja vel til flugrekstrar en þó úr sitthvorri áttinni. Það eru þeir Steinn Logi Björnsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Icelandair og forstjóri og eigandi Bluebird, auk Sveins Andra Sveinssonar, sem er annar tveggja skiptastjóra þrotabús WOW air.
Gjaldþrot Play setti mikinn svip á samfélagsumræðuna í vikunni og ljóst að fall flugfélagsins er að hafa mikil áhrif á efnahagslífið í heild. Í nýjasta þætti Spursmála mæta til leiks tveir öflugir menn til að rýna í stöðuna en það eru þeir Jens Bjarnason forstöðumaður hjá Icelandair og Þórður Gunnarsson hagfræðingur.Þá verður umfjöllun um listamannalaun haldið áfram í þættinum en sú umræða hefur verið ansi lífleg í vikunni eftir að fjallað var um listamannalaunin í Spursmálum í síðustu viku. Metsöluhöfundurinn Stefán Máni Sigþórsson mætir í settið til að ræða kerfi listamannalauna sem hann hefur verið mjög gagnrýninn á, en einnig ræðir hann nærri þriggja áratugalangan feril sinn á sviðinu.
Margir gera sig líklega í baráttunni um valdastólana í sveitarstjórnum landsins. Nafn Katrínar Júlíusdóttur hefur verið nefnt í því sambandi. Hún mætir í Spursmál ásamt Björgu Magnúsdóttur, fyrrverandi aðstoðarmanni Einars Þorsteinssonar, þáverandi borgarstjóra. Björg er nú gengin til liðs við Viðreisn og er fastlega orðuð við oddvitaembættið í þeim flokki á vettvangi borgarinnar.Þá verða Evrópumálin rædd en þau hafa fengið byr undir báða vængi í kjölfar landsþings Viðreisnar sem haldið var um liðna helgi. Þar flutti Guy Verhofstadt, fyrrverandi forsætisráðherra Hollands mergjaða ræðu og lýsti draumsýn um sameinað ríki Evrópu, heimsveldi eins og hann nefndi það. Þeim hugmyndum var tekið með dynjandi lófaklappi fundargesta. Til að ræða þessi mál mæta þeir Sverrir Páll Einarsson, forseti Uppreisnar, og Hjörtur J. Guðmundsson alþjóðastjórnmálafræðingur.
Gæti ríkissjóður hagnast um þúsundir milljarða á því ef olíuvinnsla hefst á Drekasvæðinu?Það fullyrða þeir Heiðar Guðjónsson og Haukur Óskarsson en þeir hafa í nærri tvo áratugi unnið að því að koma olíuleit og -vinnslu af stað á svæðinu. Þeir eru gestir Spursmála að þessu sinni og segja verkefnið að öllu óhættulaust fyrir ríkissjóð.En hver er hættan á umhverfisslysi og hversu langan tíma tæki að koma verkefni af þessu tagi á koppinn. Svara við þessu öllu verður leitað í þættinum.Áður en þeir mæta til leiks etja kappi þær Arna Lára Jónsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins. Arna Lára er formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins og hún situr sömuleiðis í fjárlaganefnd.Sigríður situr í velferðarnefnd þar sem kostnaðarþyngstu þættir fjárlaga liggja. Og það er einmitt af þeirri ástæðu sem þær eru kvaddar á vettvang. Til þess að ræða fjárlögin sem nú gera ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs muni nema ríflega 1.600 milljörðum króna á næsta ári.Í lok þáttar verður farið yfir nýja fjártæknilausn fyrirtækisins Aurbjargar þar sem almenningi gefst kostur á að skilja betur en áður hvernig lífeyriskerfið virkar og hvað það þýðir að greiða iðgjöld sín í þennan sjóð fremur en annan. Gríðarlega miklu getur munað á ávinnslunni eftir sjóðum og breyturnar eru margar.Það eru þau Ásdís Arna Gottskálksdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins og Baldvin Egill Baldvinsson fjártæknisérfræðingur, sem fara yfir málið.
Stefán Einar og Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur ræða um bók ágústmánaðar í Bókaklúbbi Spursmála: Líf á jörðinni okkar eftir David Attenborough. Í bókinni eru lofstlagsbreytingar og þau áhrif sem mannfólkið hefur á lífríki jarðar í stóru hlutverki. Einar er einn af okkar reyndustu veðurfræðingum og hefur mikla og góða yfirsýn yfir málaflokkinn.
Heimur á heljarþröm myndu einhverjir segja þegar stjórnmálamenn eru teknir af lífi í beinni útsendingu og Rússar herða tökin gagnvart Evrópu allri. Móta þarf nýja varnarmála stefnu fyrir Ísland.Þetta er meðal þess sem rætt er á vettvangi Spursmála í dag þar sem tveir fyrrverandi utanríkisráðherrar, þær Lilja D. Alfreðsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir mæta og ræða nýlegan yfirgang Rússa gagnvart Pólverjum, morðið á Charlie Kirk og tillögur þingmannahóps að mótun nýrrar varnarmálastefnu fyrir Ísland.Þá mæta þeir Skafti Harðarson og Róbert Bragason frá Samtökum skattgreiðenda og kynna nýtt mælaborð sem samtökin hafa komið á laggirnar. Það varpar ljósi á útgjöld ríkissjóðs tvo áratugi aftur í tímann. Þar kennir sannarlega ýmissa grasa og segja þeir félagar að mikil og augljós tækifæri séu til þess að bæta ríkisreksturinn.Að því viðtali loknu sest Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, Binni í Vinnslustöðinni niður með Stefáni Einari og fer yfir þá stöðu sem nú er komin upp í Vestmannaeyjum í kjölfar þess að fyrirtæki hans sagði upp 50 starfsmönnum í fiskvinnslu. Segir Binni að það sé afleiðing af hækkun veiðigjalda á útgerðarfyrirtæki landsins en Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra og Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra hafa sagt ástæðurnar allt aðrar.
Sífellt færri ungmenni geta lesið sér til gagns og veiðiréttarhafar eru farnir að stífla laxveiðiár af ótta við slysasleppingar laxeldisins. Hvar er í gangi í íslensku samfélagi? Þetta og fleira verður til umræðu í nýjasta þætti Spursmála.Þegar horft er yfir umræðuna um íslenska menntakerfið mætti halda að allt hafi farið úrskeiðis á síðustu árum. Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambandsins er ekki sammála því en hann viðurkennir þó að margt hefði mátt betur fara.Hann mætir á vettvang Spursmála og ræðir nýja menntastefnu og aðalnámskrá segir einn af prófessorum Háskóla Íslands segir að sé uppfull af lygum.Þá mætir Daníel Jakobsson, forstjóri Arctic Fish á Ísafirði í þáttinn og svarar fyrir slysasleppingar fyrirtækisins í Dýrafirði sem urðu til þess að veiðiréttarhafar í Haukadalsá brugðu á það ráð að stífla ána í því skyni að koma í veg fyrir óæskilega fiskgengd þar upp.Telur Jakob að fiskeldið, sem hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum, bæði á Vestfjörðum og fyrir austan, eigi sér framtíð á Íslandi?Áður en Magnús Þór og í kjölfarið Daníel mæta á vettvang ætla þau Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu og Einar Þorsteinsson, fyrrverandi borgarstjóri og nú borgarfulltrúi Framsóknarflokksins að ræða fréttir vikunnar. Þar er víst að margt forvitnilega muni bera á góma.
Spursmál hefja nú göngu sína á mbl.is að nýju eftir stutt sumarleyfi. Í upphafi fyrsta þáttar verður upplýst um nýjar vendingar í njósnamáli PPP ehf. sem teygir sig djúpt inn í íslenskt stjórnkerfi.Í fréttum vikunnar er rætt við þau Hjörvar Hafliðason eða dr. Football eins og hann er gjarnan nefndur og Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur, fréttakonu á Ríkissjónvarpinu.Í síðari hluta þáttarins er rætt við þingflokksformenn þriggja stærstu flokkanna sem sæti eiga á Alþingi. Þau Guðmund Ara Sigurjónsson, frá Samfylkingu, Sigmar Guðmundsson, frá Viðreisn og Hildi Sverrisdóttur frá Sjálfstæðisflokki.Spursmál verða á dagskrá alla föstudaga kl. 14 í vetur og þar verður farið vítt og breitt yfir sviðið og Ísland í brennidepli.
Það reyndist afar mikilvægt fyrir íslenska ríkið að nýta fullveldisrétt sinn þegar kröfuhafar föllnu bankanna sóttu á yfirvöld. Þetta segir Sigurður Már Jónsson í viðtali á vettvangi Bókaklúbbs Spursmála.Í liðnum mánuði var bókin Afnám haftanna - samningar aldarinnar? eftir Sigurð Má tekin fyrir á vettvangi klúbbsins. Tilefnið var það að nýlega voru 10 ár liðin frá því að risavaxnir samningar náðust við slitabú föllnu viðskiptabankanna sem leiddu til afnáms fjármagnshafta hér á landi. Samningarnir urðu einnig til þess að lækka skuldir ríkissjóðs um hundruð milljarða króna.
Húsfyllir var á Vinnustofu Kjarvals á dögunum þegar ríflega 150 klúbbmeðlimir mættu til leiks á þriðja viðburð Bókaklúbbs Spursmála. Þar settist Kári Stefánsson, stofnandi Íslenskrar erfðagreiningar, niður með Stefáni Einari Stefánssyni, ásamt klúbbmeðlimum, og ræddi efni bókarinnar 1984 eftir George Orwell á hispurslausan og líflegan hátt eins og hans er von og vísa.Viðraði Kári til að mynda hugmyndir um hvar hægt sé að sjá birtingarmyndir af Stóra bróður í heiminum í dag. Er hann sannfærður um að víða glitti í það fyrirbæri með beinum eða óbeinum hætti.Bókin var bók mánaðarins í Bókaklúbbi Spursmála í júnímánuði.Sjálfur las Kári bókina fyrst fyrir nærri hálfri öld síðan en efni hennar hafði áhrif á Kára, eins og fleiri, enda um eina áhrifamestu bók 20. aldar bókmennta að ræða. Hefur hún frá fyrstu útgáfu haft mótandi áhrif á hugmyndir manna um samspil ríkisvalds og einstaklingsfrelsis sem vel er hægt að heimfæra á samtímann sem við lifum nú. Að mati Kára er byggir saga Orwells á ýkjum. Raunar þykir honum sagan að mörgu leyti fráleit því hún gengur eins langt og hugsast getur í því að lýsa samfélagi sem er í heljargreipum alræðis og svipt sjálfstæðri hugsun og frelsinu um leið. Sem í margra eyrum kann reyndar að hljóma kunnulega. Það bar þó margt á góma í samtali þeirra Kára og Stefáns Einars. Má þar helst nefna upplifun hans og reynslu af alræðissamfélögum dagsins í dag, kórónuveirufaraldurinn, stjórnarfarið í Kína, ríkisvaldið hér á landi og lýsingar hans af samskiptum sem hann átti við þáverandi heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur. Sagði hann að þar hafi stálin stinn mæst en einhverjir myndu kannski frekar segja að þar hafi skrattinn hitt ömmu sína - dæmi nú hver fyrir sig. Á annað þúsund manns hafa skráð sig í klúbbinn á þeim fjórum mánuðum sem hann hefur verið starfandi og fjölgar þar enn. Nú í júlímánuði sitja klúbbfélagar við og lesa bók Sigurðar Más Jónssonar, Afnám haftanna: samningar aldarinnar? sem er bók þessa mánaðar á vettvangi klúbbsins. Af því tilefni fæst hún á sérstöku tilboði í verslunum Pennans Eymundsson. Hægt er að skrá sig í klúbbinn með því að smella hér.Samstarfsaðilar Bókaklúbbs Spursmála eru Samsung, Kerecis, Brim og Penninn.
Forseti Alþingis hefur beitt kjarnorkuákvæði þingskaparlaga gegn minnihlutanum á þingi. Starfsemi þess er í uppnámi í kjölfarið. Aukaþáttur af Spursmálum fer í að greina hina alvarlegu stöðu.Átök milli meirihluta og minnihluta á þingi tóku nýja og óvænta stefnu í kjölfar þess að Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og einn af varaforsetum Alþingis, frestaði þingfundi á tólfta tímanum síðastliðið miðvikudagskvöld.Í kjölfarið flutti Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, fordæmalaust ávarp þar sem hún lýsti því yfir að meirihluti þingheims hefði tekist á hendur það hlutverk að verja íslenska lýðveldið gegn minnihlutanum.Hildur Sverrisdóttir mætir í Spursmál og ræðir aðdragandann að þessari atburðarás og eftirleik hennar.Reynsluboltar kallaðir á vettvangAð loknu samtali við Hildi mæta þeir Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra og Einar K. Guðfinnsson fyrrverandi ráðherra og forseti Alþingis.Þeir hafa marga fjöruna sopið í hinni íslensku pólitík og þekkja söguna langt aftur.Fróðlegt verður að heyra þeirra álit á þeim atburðum sem nú hafa orðið og virðast ætla að móta alla stjórnmálaumræðu í landinu á komandi misserum.Kristrúnu Frostadóttur var boðið í þáttinn og gerð tilraun til þess að hafa samband við hana sjálfa og aðstoðarmann hennar. Það bar engan árangur.
Það er í meira lagi rafmagnað andrúmsloftið á Alþingi þessa sólarhringana. Ríkisstjórnin er ekki að koma sínum mikilvægustu málum í gegn og óvíst er hvenær þing getur farið í sumarfrí.Í nýjasta þætti Spursmála, og jafnframt þeim síðasta fyrir sumarfrí, er rætt við þrjá þingmenn stjórnarandstöðunnar og ljósi varpað á það hvernig staðan gæti þróast næstu sólarhringana. En einnig hvernig þingveturinn, sem teygðist inn á mitt sumar, hefur þróast.Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, mætir á vettvang ásamt Bergþóri Ólasyni þingflokksformanni Miðflokksins og Ingibjörgu Isaksen, formanni þingflokks Framsóknarflokksins.Spursmál verða aftur á dagskrá á mbl.is föstudaginn 15. ágúst klukkan 14.
Ólíklegt er að átökin milli Írans og Ísraels breiðist út í Mið-Austurlöndum. Fyrrnefnda ríkið virðist einangrað og án vina. Hins vegar er Bandaríkjaforseta vandi á höndum heima fyrir í ljósi þeirra yfirlýsinga sem hann hefur áður gefið um að hann vilji forðast að Bandaríkin dragist inn í átök í fjarlægum álfum. Þetta er mat Alberts Jónssonar, fyrrverandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Hann er gestur Spursmála þennan föstudaginn og ræðir hin skæðu átök sem nú standa yfir milli Ísraels og Íran.Í þættinum er einnig rætt við Sigurð Boga Sævarsson, blaðamann á Morgunblaðinu, sem fyrir þremur árum tók að ganga götur Reykjavíkur og skrá hjá sér umferð þá. Fyrr í júní lauk hann svo við að ganga þær allar. Í viðtalinu upplýsir Sigurður Bogi hversu margar göturnar eru og er ekki ólíklegt að einhverjum komi á óvart hversu margar götur prýða land Reykjavíkur.Fréttir vikunnar eru svo ekki langt undan og á vettvang mæta þau Sigmar Vilhjálmsson, athafnamaður í Minigarðinum og víðar, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. Hún leggur senn í víking til Bandaríkjanna þar sem hún hyggst setjast á skólabekk. Þrátt fyrir það er pólitíkin ekki langt undan og umræðurnar fóru um víðan völl. Meðal annars að skemmtilegum stað í NY sem ber nafnið Swingers club.
Erlendir vogunarsjóðir beittu öllum ráðum til þess að hafa ríkisstjórn Íslands undir þegar reynt var að lyfta gjaldeyrishöftum. Þeir höfðu ekki erindi sem erfiði. En eftirleikurinn var svakalegur.Atburðirnir sem náðu hápunkti í júní 2015 og mörkuðu efnahagslega stöðu Íslands allar götur síðan eru mörgum í fersku minni, en þó hefur fennt yfir margt á þeim áratug sem liðinn er síðan.Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, rifjar upp þessa atburði í Spursmálum í dag og upplýsir um atburði og atvik sem ekki hefur verið sagt frá áður.Þá mætir Jökull Júlíusson, leiðtogi hljómsveitarinnar Kaleo. Hann ræðir ferilinn og stórtónleika sem eru á teikniborðinu í Vaglaskógi síðar í sumar.Systurnar Kamilla og Júlía Margrét Einarsdætur fara yfir fréttir vikunnar á sinn einstaka hátt.





