Discover
Óli Björn - Alltaf til hægri

150 Episodes
Reverse
Þú þarft að búa yfir einhverjum innri krafti – trú á hið góða – til að tala með þeim hætti sem Erika Kirk gerði í ræðu á minningarathöf um eiginmann hennar Charlie Kirk – aðeins ellefu dögum eftir hann var myrtur. Erika sækir styrkinn í trúnna á Jesús Krist líkt og eiginmaður hennar gerði.
Fæst okkar höfum þennan styrk eða þá bjargföstu trú sem gerir okkur kleift að fyrirgefa þeim sem drepur nákominn ættingja, maka eða börn.
Sú hætta er raunveruleg að morðið á Kirk hafi djúpstæð neikvæð áhrif á tjáningarfrelsi í Bandaríkjunum – fólk fari að forðast opinskáar og hreinskiptar umræður – hætti að takast á með orðum í frjálsum rökræðum. Bandaríkjamenn, líkt við hér á Íslandi, hafa gengið út frá því sem sjálfsögðum hlut að ágreiningur sé leystur með rökræðum og í kosningum. Að tap í kosningum sé ekki heimsendir heldur annað tækifæri til að sannfæra aðra sem eru okkur ekki sammála – áður en gengið er næst að kjörborði.
Samkvæmt árlegri könnun FIRE á málfrelsi háskóla taldi einn af hverjum fimm nemendum ásættanlegt að nota ofbeldi til að stöðva fyrirlestra sem eru þeim ekki að skapi árið 2020. Árið 2024 var þriðjungur stúdenta þessarar skoðunar – einn af hverjum þremur.
Kristrún Frostadóttir lofaði fyrir kosningar að nota sleggju til „negla niður þessa vexti“. Loforðið endurspeglast í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem gefin eru fyrirheit um að fyrsta verk stjórnarinnar sé stöðugleiki og lækkun vaxta. Hvorugt hefur gengið eftir. Verðbólgan hefur reynst þrálát og vextir hafa ekki þokast niður. En sleggjan nýtist vel við að berja á barnafjölskyldum með því að afnema samsköttun hjóna.
Afnám samsköttunar mun gera það fjárhagslega erfitt (og jafnvel útilokað) fyrir annað hjóna að vera utan vinnumarkaðar að hluta eða öllu leiti, til að stunda nám, annast ung börn eða sinna langveiku barni eða aldraða foreldra. Innleidd verður alvarleg mismunun og skattbyrði vegna sömu tekna verður misjöfn eftir því hvernig tekjur skiptast á milli hjóna.
Venesúela er í rúst – efnahagslega og pólitískt. Samfélagslegir innviðir hafa verið brotnir niður. Mannréttindi eru fótum troðin og milljónir manna hafa flúið land. Nicolás Maduro, lærisveinn og eftirmaður Chavez á forsetastóli, heldur ótrauður áfram við að breyta auðugasta landi Suður-Ameríku í það fátækasta. Enn eitt draumaríki sósíalismans hefur breyst í martröð – auðlegð hefur orðið að örbirgð alþýðunnar.
Í gegnum söguna hafa einstaklingar, karlar og konur, sýnt ótrúlegt hugrekki í baráttunni fyrir frelsi og mannlegri reisn. Václav Havel í Tékklandi stóð upp gegn kommúnistastjórninni og varð síðar leiðtogi lýðræðislegrar endurreisnar landsins. Í Póllandi sameinaði Lech Wałęsa verkafólk undir merkjum Samstöðu og leiddi þjóð sína til sjálfstæðis og frelsis frá ógnarstjórn kommúnista og Sovétríkjanna. Í Rússlandi lagði Alexei Navalní líf sitt í sölurnar með því að afhjúpa spillingu og berjast gegn Pútín. Hann var myrtur með eitri í fangabúðum enda talinn hættulegur stjórnvöldum – var sérstakur þyrnir í augum Pútíns. Í Íran hafa konur eins og Narges Mohammadi neitað að þegja og greitt fyrir það með frelsi og sumar lífi sínu. Og í Venesúela stendur María Corina Machado óbuguð gegn ofríki Maduros.
Þegar þing kemur saman 9. september hefst nýr kafli í sögu ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur. Ráðherrar og þingmenn samsteypustjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins, hafa frá upphafi haldið því að ríkisstjórnin sé verkstjórn, þar sem verkin tali.
Ríkisstjórninni hefur ekki enn sem komið er tekist að koma á stöðugleika eða leggja grunn að lækkun vaxta sem áttu að vera hennar fyrsta verk. Markmið um hallalaus fjárlög næst ekki á kjörtímabilinu þrátt fyrir hækkun skatta. Loforð ríkisstjórnarinnar um fjárfestingar í innviðum, ekki síst samgöngum, breytingar á almannatryggingum, aukin framlög til heilbrigðisþjónustunnar, vinna gegn stöðugleika og lækkun vaxta.
Trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar er að veði en þó sérstaklega trúverðugleiki Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra sem gaf stærri fyrirheit en hún hefur náð að efna, fram að þessu. Þótt ríkisstjórnin standi ágætlega meðal kjósenda og Samfylkingin sérstaklega, er hætta sú að það flæði fljótt undan ef árangur næst ekki á komandi mánuðum.
Stundum er engu líkara en að saga endurtaki sig, með nýjum leikurum en öðrum blæbrigðum. Í mörgu er staða Flokks fólksins sú sama og Vinstri grænna fyrir rúmum einum og hálfum áratug. Með sama hætti og Vinstri grænir hefur Flokkur fólksins selt stefnu sína í Evrópumálum fyrir aðild að ríkisstjórn og ráðherraembætti.
Andstaðan við Bókun 35 er horfin, áralöng baráttan fyrir að draga aðildarumsókn að Evrópusambandinu formlega til baka er kominn niður í skúffu. Og hvað hefur Flokkur fólksins fengið í staðinn. Ekkert. Samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn skipulögðu þinghaldið á fyrsta þingvetri ríkisstjórnarinnar með þeim hætti að öll helstu stefnumál Flokks fólksins voru látin mæta afgangi.
Ráðherrar og þingmenn ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur – samsteypustjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins – hafa frá upphafi haldið því að ríkisstjórnin væri verkstjórn, þar sem verkin tali. Stefnan sé skýr og umboð óumdeilt. Fyrstu þrjár setningar í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar eru skýrar: „Ný ríkisstjórn gengur samstíga til verka. Fyrsta verk er að ná stöðugleika í efnahagslífi og lækkun vaxta, með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins. Um leið mun ríkisstjórnin rjúfa kyrrstöðu og vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífi.“
Rúmum sex mánuðum síðar hefur ríkisstjórnin komið litlu í verk. Stöðugleika í efnahagslífinu er ógnað, markmið um hallalaus fjárlög næst ekki á kjörtímabilinu, skattar eru hækkaðir, verðbólga er á uppleið, vextir lækka ekki, og í atvinnulífinu halda menn að sér höndum í fjárfestingum ekki síst í sjávarútvegi og tengdum greinar. Alþingi er í uppnámi – stjórn- og skipulagsleysi einkennir allt þinghald. Alþingi er líkist fremur æfingabúðum ríkisstjórnarflokkanna í stjórnmálum en löggjafarsamkomu.
Þegar þessi þáttur er takinn upp, að morgni 10. júlí, er staðan óbreytt á þingi. Allt í hnút.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna heimsótti Katar í maí síðastliðnum og átti m.a. fund með Al Thani konungsfjölskyldunni. Þá skoðaði forsetinn Al Udeid herflugstöðina sem er stærsta herstöð Bandaríkjanna á svæðinu. Trump hefur örugglega þakkað fyrir höfðinglega „gjöf": 400 milljóna dollara Boeing 747-8 þotu sem Katar hefur gefið forsetanum, og verður notuð sem Forsetavél - Air Force One.
Heimsóknin og flugvélagagjöfin varpa ljósi á þéttriðið net tengsl Katars við bandaríska valdakerfið.
Náið samband Katar og Bandaríkjanna er sérstakt þegar haft er í huga að Katar er jafnframt skjól fyrir samtök eins og Bræðralag múslima, mikilvægur fjárhagslegur bakhjarl Hamas, samverkaríki Írans, athvarf fyrir landflótta stjórnmálaleiðtoga Talíbana, og heimaríki fyrir fjölmiðlaveldi sem breiðir út boðskap íslamista - Al Jazeera — sem nær til 430 milljón manna í yfir 150 löndum.
Lykilmeðlimir konungsfjölskyldu Katars hafa opinberlega lýst aðdáun sinni á íslamisma — og Hamas sérstaklega.
Umfangsmikil fréttaskýring The Free Press um tengsl Katar og Bandaríkjanna og áhrif smáríkisins í bandarísku samfélagi er hér:
https://www.thefp.com/p/how-qatar-bought-america
Og svo er það Honestly - hlaðvarpsþáttur Free Press - þar sem er viðtal við þá tvo blaðamenn unnu að rannsóknum að baki fréttaskýringunni:
Spotify https://open.spotify.com/show/0GRPAKeSMASfbQ7VgNwYCR?si=78ce42d1876c4b1f&nd=1&dlsi=17539eb63f8c427e
Apple https://podcasts.apple.com/us/podcast/honestly-with-bari-weiss/id1570872415
Og á öllum helstu öðrum hlaðvarpsveitum.
Hayek sýndi okkur fram á að upplýsingar í samfélaginu eru alltaf dreifðar – enginn einstaklingur eða stofnun býr yfir allri þeirri þekkingu sem þarf til að taka réttar ákvarðanir í efnahagsmálum. Þekkingin sem einstaklingar búa yfir er oft takmörkuð, brotakennd og jafnvel mótsagnakennd, en samanlagt er þessi dreifða þekking undirstaða skynsamlegra ákvarðana í gegnum frjálst samspil markaðarins.
Markaðurinn virkar sem upplýsingakerfi - tryggir flæði upplýsinga. Verð á vöru og þjónustu er uppspretta upplýsinga um skort, eftirspurn og framboð án þess að nokkur hafi heildaryfirsýn.
Smásagan Ég blýanturinn eða "I, Pencil", eftir Leonard E. Read, er einföld en áhrifamikil lýsing á undirstöðum frjáls markaðar og mátt dreifðrar þekkingar. Smásagan kom út árið 1958 og af blýanti og útskýrt hið flókna samspil margra án þess að hver og einn hafi heildarskilning eða yfirsýn yfir það sem þarf til að framleiða jafn einfaldan hlut eins og blýant. Ferlið er þó svo flókið að enginn býr yfir nægjanlegri þekkingu, hæfileikum eða aðföngum til að búa til jafn einfaldan og hversdagslegan hlut.
Saga blýantsins kennir okkur að virða ósýnilegan en nauðsynlegan vef samstarfs sem hefur gert samfélögum að sækja fra. Ég hvet ykkur til að horfa á nokkurra mínútna myndband sem byggir á smásögunni.
Slóðin er hér:
https://www.youtube.com/watch?v=IYO3tOqDISE
Vinstri ríkisstjórn þriggja flokka undir forsæti Kristrúnar Frostadóttur minnir æ meira á aðra vinstri stjórn – ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna á árunum 2009 til 2013. Þá lögðu Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon til atlögu við atvinnulífið og millistéttina. Skattar voru hækkaðir og haft í hótunum við undirstöðuatvinnugreinar landsins.
Hugmyndafræði vinstri manna hefur því ekkert breyst. Hún byggir á þeirri trú að ríkissjóður sé að „kasta frá sér tekjum“ ef skattar eru ekki hækkaðir. Ekki sé verið að „nýta tekjutækifæri ríkisins“ og ríkissjóður sé að „afsala sér tekjum“ ef skattar og gjöld eru lækkuð.
Hugmyndafræði Trumps á ekkert skylt við hugsjónir Ronalds Reagans sem var forseti Bandaríkjanna 1980 til 1988. Það er umhugsunarvert að báðir skuli tilheyra Repúblikanaflokknum.
Ronald Reagan trúði því að Bandaríkin hefðu ekki aðeins hag af frjálsum viðskiptum heldur bæru siðferðilega skyldu til að efla þau milli landa. Reagan var einn helsti talsmaður frjálsra viðskipta meðal stjórnmálaleiðtoga 20. aldar. Hann trúði því að opið og frjálst hagkerfi væri lykill að hagvexti, friði og framgangi frelsis um allan heim. Á meðan hann gegndi embætti reyndi hann að styðja við alþjóðlega viðskiptastefnu sem byggðist á lækkun tolla og aukinni samvinnu milli þjóða.
Hann gagnrýndi verndarstefnu og tolla harðlega sem langtímalausn. Að hans mati gerðu slíkar aðgerðir innlendan iðnað veikari og síður samkeppnishæfan.
Tolla- og verndarstefna sem Donald Trump hefur kynnt er hluti af vaxandi þjóðernishyggju víða um heim og gengur þvert á hugmyndir baráttumanna frelsis, s.s. Reagans, Friedmans og Hayeks. Þeirra sýn var skýr og rökræn - sýn sem byggir á þeirri einföldu sannfæringu að opið hagkerfi, þar sem fólk fær að versla frjálst yfir landamæri, gagnist öllum til lengri tíma.
Fylgjendur Trumps halda því hins vegar fram að tollastefnan sé hluti af stærri sýn — uppstokkun alþjóðlegra viðskiptareglna og endurheimt efnahagslegs fullveldis. En þegar upp er staðið er hætta sú að stefna Trumps sé lítið annað en atlaga að frelsi, öryggi og hagsæld.
Með skipulegum hætti hafa andstæðingar viðskiptafrelsis reynt að grafa undan athafnamönnum með ágætum árangri, ekki aðeins í sjávarútvegi heldur einnig í öðrum greinum. Þeir hafa sáð fræjum tortryggni gagnvart þeim sem stunda atvinnurekstur, gert þá sem hagnast á viðskiptum að skotspæni og táknmyndum hins illa. Skiptir engu hvort um er að ræða dugnaðarforka sem byggt hafa upp glæsileg fyrirtæki í sjávarútvegi eða iðnaðarmenn sem hafa byrjað með tvær hendur tómar en með elju og útsjónarsemi komið á fót traustum og arðsömum fyrirtækjum. Ekki einu sinni litlir sjálfstæðir atvinnurekendur – bakbein frjálsra viðskipta – fá að vera í friði líkt og Samfylkingin hefur sérstaklega hótað.
Tilraun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, 2009 til 2013, til að knésetja íslenskan sjávarútveg var þáttur í áralangri baráttu vinstri manna gegn frjálsu viðskiptalífi. Margir atorkusamir atvinnurekendur skildu ekki og skilja ekki enn að þegar búið er að koma böndum á „sægreifana“ kemur röðin næst að þeim. Í barnslegu sakleysi sátu þeir þegjandi hjá og nokkrir glöddust yfir því að nú skyldi útgerðin látin „borga“. Nú ætlar vinstri stjórn Kristrúnar Frostadóttur að leggja aftur til atlögðu við atvinnulífið. Nú er ferðaþjónustan í skotlínunni ásamt sjávarútvegi. Sú hætta er raunveruleg að dregið verði úr samkeppnishæfni tveggja mikilvægustu útflutningsgreina okkar, sem eru í harðri alþjóðlegri samkeppni, með ofursköttum. Til skamms tíma munu tekjur ríkisins líklega aukast en til lengri tíma lækka vegna minni umsvifa, lakari afkomu og fækkun starfa. Afleiðingin verður lakari lífskjör okkar allra.
Næstkomandi laugardag taka kjósendur ákvörðun um hvort hér komist til valda vinstri ríkisstjórn eða borgaraleg ríkisstjórn með öflugum Sjálfstæðisflokki.
Skoðanakannanir benda til að fyrri kosturinn verði niðurstaðan þar sem Samfylking og Viðreisn taka höndum saman og skjóta einhverju varadekki undir. Við vitum af reynslunni að vinstri stjórn býður alltaf upp á Rússíbanareið fyrir fólk og fyrirtæki.
Með hliðsjón af sögunni og reynslunni af vinstri stjórnum eiga allir kjósendur að vita hvað býður þeirra á komandi kjörtímabili, ef niðurstaða kosninganna verða í takt við skoðanakannanir:
Hærri skattar heimilanna
Lægri ráðstöfunartekjur launafólks
Hærri skattar fyrirtækja
Atlaga að einyrkjum og sjálfstæðum atvinnurekendum
Stóraukin ríkisútgjöld
Auknar millifærslur
Stærra og flóknara bákn
Endurtekinn ESB-skollaleikur síðustu vinstri stjórnar
Samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu
Minni hagvöxtur
Hærri verðbólga
Hærri vextir
Það var langt í frá sjálfgefið að ríkisstjórnarflokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri grænir, héldu áfram samstarfi í nýrri ríkisstjórn, eftir að Katrín Jakobsdóttir baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Myndun nýrrar ríkisstjórnar er aldrei einföld. Allra síst þegar fulltrúar ólíkra póla í stjórnmálum gerast samverkamenn, jafnvel þótt reynslan af rúmlega sex ára samstarfi sé í mörgu góð.
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar stendur frammi fyrir mörgum áskorunum. Fyrir alla stjórnarflokkana er mikilvægt að þeim verði mætt og að árangur náist á þeim stutta starfstíma sem ríkisstjórnin hefur. Aðeins árangur réttlætir ákvörðun flokkanna um að halda samstarfinu áfram.
Sundrung og skautun vestrænna samfélaga eru ógnir sem fæstir virðast leiða hugann að. Umburðarlyndi á raunverulega í vök að verjast. Óþol gagnvart þeim sem eru á annarri skoðun vex, óþolinmæði og fordómar sundra og grafa undan lýðræði. Eitrið seytlar um æðar háskólasamfélaga, sem áður voru brjóstvörn frjálsra skoðanaskipta. Skautun samfélagsins birtist í áhrifamiklum fjölmiðlum sem er fyrirmunað að fjalla af yfirvegun og sanngirni um mikilvæg samfélagsleg málefni. Hér á Íslandi hefur Ríkisútvarpið verið að breytast í kirkjudeild pólitísks rétttrúnaðar þar sem hlutleysi er fórnarlambið en skattgreiðendur eru neyddir til að borga reikninginn.
Þegar spurðist út að formaður Samfylkingarinnar telji nauðsynlegt að breyta stefnunni í málefnum hælisleitenda fóru margir af taugum. Stór orð voru látin falla. Svo mikill var pólitíski skjálftinn innan raða Samfylkinga að tveir gamlir formenn töldu sig nauðbeygða til að taka til varna fyrir Kristrúnu. Össur Skarphéðinsson hafnaði því að Kristrún hafi verið að boða stefnubreytingu og í svipaðan streng tók Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Kristrún hafi bara verið með „almennar vangaveltur um ýmsar hliðar þessara mála. Ingibjörg Sólrún hafði hins vegar áhyggjur af því að hinar almennu „vangaveltur“ Kristrúnar væru að ala á sundrungu innan flokksins: „Látum ekki siga okkur hverju á annað.“
Stefnubreyting eða ekki stefnubreyting? Kannski skiptir svarið ekki öllu en hitt er augljóst að Kristrún Frostadóttir talar með allt öðrum hætti en þingmenn og frambjóðendur Samfylkingarinnar hafa gert á undanförnum árum. Og það er lítill samhljómur með orðum Kristrúnar og ályktana flokksins.
Samkvæmt fjárlögum liðins árs var skattgreiðeindum ætlað að greiða Ríkisútvarpinu um 5,7 milljarða króna og á þessu ári um 6,1 milljarð. Þetta þýðir að á ellefu árum hefur ríkismiðilinn fengið í sinn hlut yfir 61 milljarð frá skattgreiðendum með milligöngu ríkissjóðs. Við þetta bætast tekjur af samkeppnisrekstri.
Á sama tíma og ríkismiðilinn fitnar líkt og púkinn í fjósinu hans Sæmundar, berjast sjálfstæðir fjölmiðlar í bökkum. Með skipulegum hætti gerir Ríkisútvarpið strandhögg á flestum sviðum fjölmiðlunar, allt frá auglýsingum til dagskrárgerðar og hlaðvarpsþátta.
Alls greiddu einstaklingar um 333 milljörðum króna lægri fjárhæð í tekjuskatt á ellefu ára tímabili (2013-2023) en þeir hefðu greitt ef skatthlutföll og skattareglur hefðu verið óbreytt frá tíð vinstri ríkisstjórnarinnar Samfylkingar og Vinstri grænna 2009 til 2013.
Tryggingagjöld hafa lækkað verulega og sama má segja um tolla og vörugjöld, erfðafjárskatt og fjármagnstekjuskatt tekjulægri hópa með verulegri hækkun frítekjumarks. Alls eru þeir skattar sem hafa lækkað nær 128 milljöðrum lægri en þeir væru að óbreyttu. Á móti koma hins vegar ýmsar skattahækkanir alls upp á 43 milljarða króna.
Ekki er hægt að mæla á móti því að frá árinu 2013 hafi töluvert áunnist í að hemja skattagleði ríkisins þetta er þvert á möntru sem jafnvel hægri menn í dygðaskreytingum halda fram. Árangurinn blasir við þegar rýnt er í tölulegar upplýsingar. En jafnvel þótt flest skrefin sem stigin hafa verið síðasta áratuginn séu í rétta átt, stendur sú staðreynd óhögguð að Ísland er háskattaland í alþjóðlegum samanburði. Ég hef verið óþreytandi við að benda á að skattbyrði launafólks og fyrirtækja, hafi bæði áhrif á samkeppnishæfni þjóðarinnar og á lífskjör.
Skattaglaðir vinstri menn fara yfirleitt af taugum þegar minnst er á skattalækkanir. Kaldur hrollur fer um þá alla þegar þeir átta sig á því að árangur (ekki nægilega mikill) hefur náðst á síðustu tíu árum við að létta skattbyrðar einstaklinga og fyrirtækja. Með skattalækkunum hafa ráðstöfunartekjur heimilanna aukist og hlutfallslega hefur aukningin verið mest hjá þeim sem lægstu launin hafa.
Pabbi var meðalmaður á hæð, með þykkt hrafntinnu svart liðað hár sem fór ekki að grána fyrr en hann stóð á fimmtugu. Hann var kvikur í hreyfingum enda hjólaði hann alla daga í og úr vinnu, jafnt sumar sem vetur.
Pabbi féll frá árið 1991. Aðeins 58 ára gamall. Hann fékk heilablóðfall nokkrum árum áður og var aldrei sami maður. Hann gat sætt sig við hreyfihömlun en aldrei við lömun í tali. Fyrir áfallið var pabbi fljúgandi mælskur – leikari af guðs náð – magnaður ræðumaður – ótrúlegur sögumaður og eftirherma. Hann var maður orðsins. Hann lamaðist á hægri hlið og því varð rithöndin ónýt. Með þrautseigju og meðfæddri þrjósku fór pabbi að skrifa með vinstri hendi, þá 53 ára gamall. En það fór í taugarnar á honum að rithöndin var ekki sú sama fallega sem hann erfði frá afa Jóni og hann náði aldrei sama hraða og áður.
Margt í sögu föður míns er hulið.
Af bréfaskriftum Kára er augljóst að það hefur ekki verið einfalt fyrir hann að taka ákvörðun að snúa aftur heim til Íslands. Hann segir móður sinni 25. febrúar 1955 að ekki sé ráðlegt að koma heim að sinni þrátt fyrir atvinnuleysið. Hann vilji vinna sér „inn pening og koma ekki með öllu allslaus heim“. Hann biður móður sína að sýna sér skilning í þessum efnum. Kári viðurkenndi í bréfi til föður síns 15. september 1954 að hann viti ekki hvað bíði hans þegar hann snúi aftur heim en „vera má að ég fái eitthvert það starf, sem mér fellur vel“. Ekki komi annað til greina en fast starf „ella sest ég ekki að á Króknum, sem þó er ósk mín“.
Þetta er fjórði hluti frásagnar um tvo æskuvini sem leituðu betra lífs í Kanada 1954/55.
Eftir því sem líður á dvöl æskuvinanna í „fyrirheitna landinu“ verður tóninn þyngri og greinilegt er að Kanada olli þeim töluverðum vonbrigðum. Kári talar um þetta „óttalega“ land og að engin hætta sé á að Ameríka gleypi hann enda sé hann „fullseigur biti og bragðvondur að auki“. Kári og Haukur voru atvinnulausir í marga mánuði.
Kári tekur fram að þótt ekki hafi allt gengið eftir eins og hann vonaðist til þá beri hann ekki kala hvorki til landsins né fólksins – þvert á móti þyki honum vænt um hvorutveggja. Dvölin í Kanada hafi á margan hátt verið ánægjuleg og ógleymanleg:
„Nú í fyrsta sinn hefi ég eiginlega reynt hvað lífið er. Heima lifði maður svo dæmalaust vel að lífið var bara leikur. Það er líka gaman að kynnast framandi fólki og kanna ókunna stigu.“
Þetta er þriðji hluti frásagnar um unga menn frá Króknum sem leituðu fyrir sér í Kanada 1954 og 1955.