Lægri skattar - aukin velferð
Description
Alls greiddu einstaklingar um 333 milljörðum króna lægri fjárhæð í tekjuskatt á ellefu ára tímabili (2013-2023) en þeir hefðu greitt ef skatthlutföll og skattareglur hefðu verið óbreytt frá tíð vinstri ríkisstjórnarinnar Samfylkingar og Vinstri grænna 2009 til 2013.
Tryggingagjöld hafa lækkað verulega og sama má segja um tolla og vörugjöld, erfðafjárskatt og fjármagnstekjuskatt tekjulægri hópa með verulegri hækkun frítekjumarks. Alls eru þeir skattar sem hafa lækkað nær 128 milljöðrum lægri en þeir væru að óbreyttu. Á móti koma hins vegar ýmsar skattahækkanir alls upp á 43 milljarða króna.
Ekki er hægt að mæla á móti því að frá árinu 2013 hafi töluvert áunnist í að hemja skattagleði ríkisins þetta er þvert á möntru sem jafnvel hægri menn í dygðaskreytingum halda fram. Árangurinn blasir við þegar rýnt er í tölulegar upplýsingar. En jafnvel þótt flest skrefin sem stigin hafa verið síðasta áratuginn séu í rétta átt, stendur sú staðreynd óhögguð að Ísland er háskattaland í alþjóðlegum samanburði. Ég hef verið óþreytandi við að benda á að skattbyrði launafólks og fyrirtækja, hafi bæði áhrif á samkeppnishæfni þjóðarinnar og á lífskjör.
Skattaglaðir vinstri menn fara yfirleitt af taugum þegar minnst er á skattalækkanir. Kaldur hrollur fer um þá alla þegar þeir átta sig á því að árangur (ekki nægilega mikill) hefur náðst á síðustu tíu árum við að létta skattbyrðar einstaklinga og fyrirtækja. Með skattalækkunum hafa ráðstöfunartekjur heimilanna aukist og hlutfallslega hefur aukningin verið mest hjá þeim sem lægstu launin hafa.