#33. - Rándýr samgöngusáttmáli og Sjálfstæðisflokkur í sögulegri lægð
Description
Enn er margt á huldu um það hvernig fjármagna skuli borgarlínuna. Til að varpa ljósi á málið mæta Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri og Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna í Spursmál.
Líkt og fram hefur komið stefna stjórnvöld á að verja 311 milljörðum króna í samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu fram til ársins 2040. Enn er þess beðið að ljósi verði varpað á hvernig verkefnið verður fjármagnað en ljóst er að nýjar álögur verða að veruleika, gangi fyrirætlanir yfirvalda eftir.
Ný Maskínukönnun sýnir að fylgi Sjálfstæðisflokksins er í frjálsu falli og hefur aldrei í 95 ára sögu hans mælst viðlíka lágt. Á sama tíma fara Miðflokkurinn og Samfylkingin með himinskautum og margt bendir til þess að Sósíalistar muni ná mönnum inn á þing meðan VG sitji eftir með sárt ennið.
Til þess að ræða þessa stöðu, ásamt þróun stjórnmálaástandsins í Bandaríkjunum, mæta þau Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, forseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst og Hermann Nökkvi Gunnarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, á vettvang og ræða fréttir vikunnar.