#84. - Kjarnorkuástand á þinginu
Description
Forseti Alþingis hefur beitt kjarnorkuákvæði þingskaparlaga gegn minnihlutanum á þingi. Starfsemi þess er í uppnámi í kjölfarið. Aukaþáttur af Spursmálum fer í að greina hina alvarlegu stöðu.
Átök milli meirihluta og minnihluta á þingi tóku nýja og óvænta stefnu í kjölfar þess að Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og einn af varaforsetum Alþingis, frestaði þingfundi á tólfta tímanum síðastliðið miðvikudagskvöld.
Í kjölfarið flutti Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, fordæmalaust ávarp þar sem hún lýsti því yfir að meirihluti þingheims hefði tekist á hendur það hlutverk að verja íslenska lýðveldið gegn minnihlutanum.
Hildur Sverrisdóttir mætir í Spursmál og ræðir aðdragandann að þessari atburðarás og eftirleik hennar.
Reynsluboltar kallaðir á vettvang
Að loknu samtali við Hildi mæta þeir Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra og Einar K. Guðfinnsson fyrrverandi ráðherra og forseti Alþingis.
Þeir hafa marga fjöruna sopið í hinni íslensku pólitík og þekkja söguna langt aftur.
Fróðlegt verður að heyra þeirra álit á þeim atburðum sem nú hafa orðið og virðast ætla að móta alla stjórnmálaumræðu í landinu á komandi misserum.
Kristrúnu Frostadóttur var boðið í þáttinn og gerð tilraun til þess að hafa samband við hana sjálfa og aðstoðarmann hennar. Það bar engan árangur.