Bjarki Steinn – „Upplifunin var að ég rétt náði að lifa þetta af“
Description
Bjarki Steinn Pétursson var um átta ára gamall þegar ókunnugur karlmaður braut á honum á fótboltavellinum á skólalóðinni. Hann segir frá brotinu og afleiðingum þess en hann fékk enga áfallahjálp og hélt áfram að ganga í skólann, gekk framhjá staðnum, þar sem honum fannst lífi sínu ógnað, á hverjum degi. Eftir þetta fór að halla undan fæti, hann byrjaði snemma að drekka og neyta fíkniefna, sem hann segir hafa verið ákveðna björgun frá sjálfsskaða og sjálfsvígshugsun á sínum tíma, þar til neyslan fór að vera önnur tegund af sjálfsskaða.
Fyrir nokkrum árum breyttist allt. Hann varð edrú, kynntist hugvíkkandi efnum og vann úr áföllum. Hann kom út sem trans maður og hóf ferlið sem hann ræðir nánar í þættinum.Bjarki hefur undanfarin fjögur ár sótt sér menntun í undirbúning og eftirvinnu tengt notkun hugvíkkandi efna. Hann ræðir um hugvíkkandi ferðalög, mikilvægi undirbúnings og áhætturnar.
Allt þetta og mikið meira í Fókus.